Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 12:27:21 (6861)

2001-04-26 12:27:21# 126. lþ. 113.5 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., Frsm. meiri hluta GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[12:27]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Guðjón Guðmundsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst koma fram ótrúlega mikil forræðishyggja í máli hv. þm. og hann kynnti það í lok máls síns að flokkur hans mundi greiða atkvæði gegn þessu frv., frv. sem er flutt að eindreginni ósk heimamanna. Það er til komið að frumkvæði Fjórðungssambands Vestfirðinga og byggt á samkomulagi allra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Það er náttúrlega ljóst að síðan er hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvort það vill selja eða ekki og það er vitað mál líka að ekki er einhugur um það hjá sveitarfélögunum hvort þau ætla að selja eða selja ekki verði þetta að lögum.

Það verður líka að ítreka það sem kom fram í ræðu minni áðan að öll réttindi Orkubús Vestfjarða haldast óbreytt samkvæmt frv. Réttindi starfsmanna eru tryggð og gert er ráð fyrir áframhaldandi skattfrelsi Orkubús Vestfjarða.

Hv. þm. taldi sig lesa eitt og annað milli línanna og hann nefndi að ný orkulög væru væntanleg og því væru þessi ákvæði um réttindi starfsmanna lítils virði og mundu aðeins gilda í nokkra mánuði en það er auðvitað ljóst að með nýjum orkulögum breytist ýmislegt í rekstri orkufyrirtækjanna. Það er alveg óháð því varðandi Orkubú Vestfjarða hvort það er hlutafélag eða hvort það er í núverandi eignarformi, þær breytingar sem þá munu hugsanlega ganga yfir og kannski virka á hag starfsmannanna. Þær munu auðvitað ganga yfir hvert sem eignarhaldið er á þessu fyrirtæki.

Ég vil svo ítreka, herra forseti, að með þessu frv. er ekki verið að taka ákvörðun um sölu heldur skapa lagalegt umhverfi til þess að af sölu geti orðið og ekki ætla ég að dæma hvort sveitarfélögin hvert fyrir sig eða öll eiga að selja þetta fyrirtæki eða ekki. Það er einfaldlega mál heimamanna. Og enn einu sinni, frv. er flutt að ósk heimamanna og ég tel að við alþingismenn þurfum ekki að hafa vit fyrir þeim.