Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 12:29:19 (6862)

2001-04-26 12:29:19# 126. lþ. 113.5 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[12:29]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þm. Guðjón Guðmundsson séum alveg sammála um að ný orkulög munu gerbreyta umhverfinu og þess vegna er ég að segja það, að ég er ekki að tala um forræði. Ég er að tala um og það kom fram í máli mínu að ég tel að sveitarstjórnarmenn og ráðamenn, m.a. fyrirtækisins á Vestfjörðum, hafi verið í þeirri stöðu að samþykkja eða ekki, þetta væri heildarpakki. Ég kom mjög vel inn á það í máli mínu og ég tel að þeir geri þetta í nauð og samþykki þetta þannig. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson undirstrikaði það sem ég lét koma fram í mínu máli að þessir mjög strögu fyrirvarar sem ráðamenn á Vestfjörðum setja varðandi stjórn fyrirtækisins, varðandi starfsmannamál o.s.frv., það er engin trygging fyrir því að þetta haldi. Þess vegna er það meginpunkturinn í máli mínu og ég tel að það hafi einnig komið fram hjá hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni að betra hefði verið að bíða þangað til ný orkulög koma fram þannig að menn sæju alveg nákvæmlega í hvaða sporum þeir standa.

Hér er verið að keyra þetta í gegn örfáum mánuðum eða missirum áður en ný orkulög fara í gegn. Menn geta bara staðið frammi fyrir því að það stendur ekki steinn yfir steini varðandi þá hugsun og tryggingar sem menn hafa sett fram heima fyrir varðandi stöðu fyrirtækisins, stjórnun þess og starfsmannahald. Það er mergurinn málsins að við erum að gera þetta örfáum mánuðum áður en það verður gerbreytt landslag að öllum líkindum varðandi orkumál í landinu.