Staða erlends fiskverkafólks

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 13:41:23 (6868)

2001-04-26 13:41:23# 126. lþ. 113.95 fundur 488#B staða erlends fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég fagna þeim upplýsingum sem koma fram í máli hæstv. félmrh. Mér sýnist mega vænta þess að í raun og veru sé verið að taka á þessu máli með mjög afgerandi hætti og það er gott. En í sjálfu sér er dapurlegt að þetta ástand skyldi þurfa að koma upp. Það hefur dregið athyglina að þeirri staðreynd að hér hafa verið um 600--700 manns, erlendir verkamenn að störfum í raun og veru án þeirra réttinda sem til þarf og sú staða gat komið upp að þessi hópur væri hér réttindalaus og tekjulaus þrátt fyrir að af þeim hafi verið greidd opinber gjöld og þrátt fyrir að þetta fólk hafi verið sótt hingað til lands til að vinna mikilvæg störf sem hefur ekki verið mannafli til að gera hér innan lands.

Það er að vísu fagnaðarefni að langflest fyrirtæki sem í hlut eiga hafa valið þá leið að halda þessu fólki á kauptryggingu og þarf af leiðandi er hópurinn ekki mjög stór sem hefur þegar sætt því að fara út af launaskrá og fá ekki atvinnuleysisbætur og er í raun og veru smámál í fjármunum talið að kippa því í liðinn, kannski 3--4 millj. kr. miðað við að þetta sé 50 manna hópur eða svo.

En ég vil spyrja að því hvort ekki sé í framhaldi af þessu ástæða til að skoða ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar í þessu efni þannig að ekki þurfi að byggja á einhverri reglugerðarheimild af þessu tagi heldur sé það bara tryggt að það fólk sem fengið er til þess að vinna hér störf sem greidd eru af opinber gjöld, þar með talið tryggingagjald, skuli alltaf vera tryggt í þessu sambandi þannig að svona aðstæður geti ekki komið upp. Mér sýnist því að það geti verið tilefni til þess um leið og ég fagna væntanlegri reglugerðarútgáfu hæstv. félmrh. að fara yfir það hvort ekki eigi að stoppa upp í þetta gat með varanlegum hætti og með sterku garni þannig að aðstæður af þessu tagi geti ekki komið upp.