Staða erlends fiskverkafólks

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 13:49:23 (6872)

2001-04-26 13:49:23# 126. lþ. 113.95 fundur 488#B staða erlends fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[13:49]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Karli V. Matthíassyni fyrir að hreyfa þessu mikla máli.

En það blasir alveg við eins og fram hefur komið hjá mörgum ræðumanna, að eftir nær mánaðarverkfall sjómanna er tekjuhrun hjá verkafólki í fiskvinnslu og það gildir um okkar fólk. Við höfum áður rætt stöðu fiskverkafólks í þinginu og nauðsynina á því að fara ofan í lagasetningar og regluverk til að gæta hagsmuna þeirra betur.

Það er alveg ljóst að fjöldi útlendinga sem er við störf í fiskvinnslu hér og víðar sem hefur ekki hið svokallaða græna kort og er þar af leiðandi réttindalítið eða réttindalaust. Sem betur fer er þessi hópur ekki nema upp á 52 þar sem atvinnurekendur hafa sagt fólkinu upp og sent það út á guð og gaddinn.

Ég vil mótmæla því að það sé verið að setja ofan í við menn þegar sagt er að þetta fólk sé neytt til þess að segja sig til sveitar. Þannig er kerfið að það í raun og veru gerir það. Þetta eru algjör neyðarúrræði.

Virðulegi forseti. Um leið og ég fagna viðbrögðum hæstv. félmrh. við þessu máli þar sem hann hyggst taka á þessu, þá liggur alveg ljóst fyrir að það er nauðsynlegt að taka upp og ræða um skyldur atvinnurekenda eða skyldur okkar gagnvart þessu fólki. Það getur ekki verið meiningin að fyrirtækin í landinu geti sótt sér vinnuafl erlendis og það fólk sé síðan án réttinda eins og raun ber vitni. Við verðum að herða reglurnar og gæta þess að fyrirtæki sem þurfa á erlendu vinnuafli að halda hafi einnig skyldur gagnvart því erlenda fólki þannig að svona mál þurfi ekki að koma upp. Það er mergurinn málsins.

Mér er sagt að þeir sem hafa ekki græn kort séu 600--700 manns. Það er í mínum huga alveg borðleggjandi að skyldur fyrirtækjanna sem þurfa á þessu vinnuafli að halda eiga að vera miklu meiri. Þær eiga að koma í veg fyrir vandamál sem upp koma af þessu tagi gagnvart því fólki sem ekki hefur fengið græna kortið og stendur því ekki jafnfætis fólki okkar varðandi atvinnuleysisbætur o.s.frv.