Staða erlends fiskverkafólks

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 13:58:41 (6876)

2001-04-26 13:58:41# 126. lþ. 113.95 fundur 488#B staða erlends fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Ég held að það sé nú ekkert alvarlegra að sækja bætur á sveitarstjórnarskrifstofu en að sækja atvinnuleysisbætur til vinnumiðlunar. Hvort tveggja er vegna þess að menn hafa misst vinnuna vegna tilverknaðar annarra. Ég kann ekki við þetta tal um hreppsómaga.

En það er hverju orði sannara að lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð þarf að endurskoða. Fyrir þinginu liggur frv. um atvinnuréttindi útlendinga og ég held að það sé mjög til bóta. Við þurfum líka að laga lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð, m.a. með tilliti til útlendra starfsmanna og það verður væntanlega gert í sumar. Ég vonast eftir að geta lagt fram frv. þar um í haust. Það er reyndar ekki heppilegasti tíminn að vinna að því meðan verkfall stendur.

Tekjutap fiskverkafólks er mjög alvarlegt. Það eru samtals 386 fiskverkamenn komnir á atvinnuleysisbætur, þ.e. fyrst og fremst hjá Samherja, Guðmundi Runólfssyni í Grundarfirði og fyrirtækjum á Austurlandi. Það eru 250 manns á Austurlandi sem eru bara á bótum, bara á strípuðum atvinnuleysisbótum.

Þarna verður fólkið fyrir verulegu tekjutapi og reyndar verður það fyrir verulegu tekjutapi jafnvel þótt það haldi kauptryggingu. Sjómannaverkfallið verður að leysast og það er samningsaðilanna að gera það. Ríkisstjórnin er ekki með neinn undirbúning að lagasetningu.

Rétt er að halda því til haga að síðast þegar sett voru lög um kjör sjómanna var lögfest tillaga sem sjómenn höfðu samþykkt en útgerðarmenn höfðu fellt. Sett voru lög í þeim anda sem sjómennirnir voru búnir að samþykkja.

Ég vil svo að endingu heita á forráðamenn verkalýðsfélaganna að þeir leggi okkur lið og kynni útlendum starfsmönnum á sínu svæði þann rétt sem þeir hafa.