Stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 14:06:29 (6878)

2001-04-26 14:06:29# 126. lþ. 113.96 fundur 489#B stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir# (umræður utan dagskrár), iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Samkvæmt gildandi lögum um Byggðastofnun, sem komu til framkvæmda hinn 1. janúar 2000, segir orðrétt í 7. gr., með leyfi forseta:

,,Iðnaðarráðherra leggur fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir fjögurra ára tímabil. Áætlunin skal lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, áætlunum um aðgerðir og tengsl byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu.

Í byggðaáætlun skal gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu.

Iðnaðarráðherra skal vinna að byggðaáætlun í samvinnu við Byggðastofnun. Við gerð byggðaáætlunar hafi iðnaðarráðherra samráð við önnur ráðuneyti, sveitarfélög og aðra aðila eftir þörfum.``

Í athugsemdum við lagafrv. var þetta ákvæði skýrt með eftirfarandi hætti:

,,Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að Byggðastofnun geri tillögu að stefnumótandi áætlun í byggðamálum til fjögurra ára í senn og að ráðherra leggi tillöguna fyrir Alþingi til afgreiðslu. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að frumkvæði að gerð byggðaáætlunar verði hjá iðnaðarráðherra.``

Þessi breyting var gerð á lögunum til samræmis við breytta stjórnsýslulega stöðu stofnunarinnar, en samkvæmt eldri lögum skipaði Alþingi stjórn Byggðastofnunar en ekki ráðherra eins og nú er. Þrátt fyrir þessa breytingu á lögunum hefur alltaf staðið til að hafa náið samstarf við Byggðastofnun um mótun nýrrar byggðaáætlunar. Starfsmenn stofnunarinnar munu eiga sæti í verkefnishópum og þá hefur verið ákveðið að formaður og varaformaður stjórnar taki sæti í verkefnisstjórn. Auk þess er ljóst að stofnunin mun vinna greinargerðir vegna þeirrar vinnu sem hafin er.

Það gætir misskilnings í þeirri umræðu sem fram hefur farið um mótun nýrrar byggðastefnu eða byggðaáætlunar. Staðreyndin er sú að ég hef fengið breiðan hóp af fólki með mikla reynslu í atvinnulífinu, af atvinnuþróunarstarfi á landsbyggðinni, úr menntakerfinu og víðar til að vinna hugmyndir að nýrri byggðaáætlun. Þegar þeirri vinnu lýkur er það hlutverk ráðherra að leggja endanlegar tillögur fyrir ríkisstjórn og láta vinna málið til þinglegrar meðferðar.

Sama fyrirkomulag er viðhaft t.d. þegar samgrh. leggur fram þáltill. um samgönguáætlun. Hann skipar nefnd til að vinna að tillögugerðinni, en samgrh. tekur við þeirri vinnu og mótar endanlegar tillögur til ríkisstjórnar.

Í nefnd samgrh. um mótun samgönguáætlunar sitja forstjórar þriggja stofnana, flugmálastjóri, vegamálastjóri og siglingamálastjóri, auk Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarfulltrúa í Reykjavík.

Ég veit ekki til þess að athugasemdir hafi verið gerðar við þessa skipan mála enda tel ég eðlilegt að viðkomandi fagráðherra leiti þeirrar aðstoðar sem hann óskar við undirbúning stefnumörkunar. Öll mál koma til kasta ríkisstjórnar og Alþingis að lokum.

Síðastliðið sumar fól ég Byggðastofnun að gera úttekt á framkvæmd gildandi byggðaáætlunar. Þeirri vinnu mun nú vera lokið þó svo að endanleg skýrsla hafi ekki borist ráðuneytinu. Ég vonast til að geta lagt skýrsluna fyrir Alþingi sem fyrst.

Hvers vegna eru áhersluatriði við gerð nýrrar byggða\-áætlunar takmörkuð við einungis þrjá málaflokka og hvað réð vali þeirra?

Ég ákvað að setja á fót þrjá starfshópa til að fjalla um tiltekin svið sem ég tel að skipti miklu máli fyrir þróun byggðar í landinu. Þessi svið eru atvinnuþróun, alþjóðasamvinna og fjarskipta- og upplýsingatækni. Þetta útilokar á engan hátt að hægt verði að taka önnur efni til umfjöllunar sem máli skipta varðandi þróun byggðar í landinu.

Eins og ég sagði áðan vænti ég þess að geta lagt skýrslu Byggðastofnunar um framkvæmd gildandi byggðaáætlunar fyrir Alþingi sem fyrst þannig að þinginu gefist kostur á því að ræða áherslur sínar í byggðamálum um það leyti sem vinna við mótun nýrrar byggðaáætlunar fer af stað. Skýrslan mun hafa verið afgreidd á stjórnarfundi Byggðastofnunar í gær og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að hægt verði að dreifa henni í þinginu á næstu dögum.