Stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 14:13:36 (6880)

2001-04-26 14:13:36# 126. lþ. 113.96 fundur 489#B stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir# (umræður utan dagskrár), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[14:13]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Stjórnskipulagi byggðamála og vinnulagi við byggðaáætlanir var breytt nokkuð með nýjum lögum um Byggðastofnun sem voru samþykkt á Alþingi fyrir rúmu ári. Samkvæmt gömlu lögunum kynnti forsrh. stjórn Byggðastofnunar stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og á hvaða atriði skyldi lögð áhersla við gerð áætlunarinnar. Stjórn Byggðastofnunar gerði síðan tillögu að stefnumótandi áætlun í byggðamálum til fjögurra ára í senn og forsrh. lagði tillöguna fyrir Alþingi í formi þáltill.

Samkvæmt nýju lögunum leggur hins vegar iðnrh. fyrir Alþingi till. til þál. um stefnumótandi byggðaáætlun sem unnin er í samvinnu við Byggðastofnun. Munurinn er sem sagt sá að frumkvæðið að gerð áætlunarinnar hefur flust frá Byggðastofnun til ráðuneytis byggðamála.

Hæstv. iðnrh. hefur nú hafið undirbúning að gerð næstu byggðaáætlunar með því að skipa verkefnisstjórn og þrjá starfshópa til að fjalla um tiltekin viðfangsefni í byggðamálum. Verkefnisstjórnin er undir forustu rektors Háskóla Íslands, en þar sitja einnig einstaklingar úr atvinnulífi og sveitarstjórnarmálum og hæstv. ráðherra hefur nú ákveðið að formaður og varaformaður stjórnar Byggðastofnunar taki sæti í verkefnisstjórninni. Ég tel það rétta ákvörðun hjá hæstv. ráðherra og í anda þess sem segir í lögunum um samvinnu við Byggðastofnun.

Talandi um byggðaáætlanir má geta þess að stjórn Byggðastofnunar fékk í gær greinargerð um það hvernig til hefur tekist með framkvæmd þeirrar áætlunar sem Alþingi samþykkti fyrir árin 1999--2001. Úttekt sú sem hv. málshefjandi, Jón Bjarnason, lýsti eftir hér áðan barst sem sagt stjórn Byggðastofnunar í gær. Þar kemur fram að vel hefur tekist til um marga þætti áætlunarinnar. Þar má nefna stóraukið atvinnuþróunarstarf á landsbyggðinni, (ÖS: Fjarvinnslu?) stofnun eignarhaldsfélaga í öllum landshlutum, tvöföldun framlaga til jöfnunar námskostnaðar, stóraukin framlög til jöfnunar húshitunarkostnaðar, uppbyggingu fjarkennslu og símenntunarmiðstöðva, svo eitthvað sé nefnt. (ÖS: En fjarvinnsla?) Ef formaður Samfylkingarinnar getur haldið sér saman í tíu sekúndur þá verð ég búinn og þá getur hann fengið orðið. Þessi skýrsla afsannar gífuryrði hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur í ræðu sinni hér áðan.

Það er mikilvægt að vel takist til við gerð næstu byggðaáætlunar með það að markmiði að aðstæður til atvinnu og mannlífs á landsbyggðinni standist samkeppni við það sem best gerist.