Stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 14:18:29 (6882)

2001-04-26 14:18:29# 126. lþ. 113.96 fundur 489#B stjórnskipulag byggðamála og vinnulag við byggðaáætlanir# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hv. málshefjandi dramatíseraði málið nokkuð mikið að mínu mati og viðhafði ummæli sem eiga sér enga stoð í veruleikanum. Ég vil því draga fram aðalatriði málsins þannig að mönnum sé ljóst um hvað sjónarmiðin hafa snúist.

Í fyrsta lagi er enginn ágreiningur um það að forræði málsins er á hendi iðnrh. Það var tilgangur lagabreytinganna á sínum tíma að færa málaflokkinn undir ráðherra í ríkisstjórn frá því munaðarleysi sem hann hafði verið undir þingkjörinni stjórn. Það er alveg ljóst að það háði framgangi byggðamála á sínum tíma að sú stofnun sem fór með málið heyrði ekki undir neitt ráðuneyti. Það var tilgangur okkar sem stóðu að frv. á sínum tíma að tryggja framgang byggðamála betur með því að fá ábyrgð á málaflokknum í hendur tilteknum ráðherra. Um það hefur aldrei verið deilt, það var tilgangur málsins í upphafi.

Í öðru lagi var enginn ágreiningur um það fyrirkomulag sem iðnrh. hefur kynnt, að setja á fót verkefnisstjórn og undirnefndir til að taka fyrir einstök mál og velja inn í verkefnisstjórnina menn úr öðrum áttum, m.a. úr atvinnulífinu og sveitarstjórnum. Um það var enginn ágreiningur.

Það sem fram kom af hálfu Byggðastofnunar og stjórnar hennar var að stjórninni þótti eðlilegt til að tryggja sem best samráð í þessu máli að stjórnin hefði fulltrúa og beina aðild að verkefnisstjórninni. Þegar ég kynnti hæstv. iðnrh. þessi sjónarmið stjórnar féllst ráðherra á þau umyrðalaust og náðst hefur algjör samstaða um framkvæmd málsins milli stofnunar og ráðherra.