Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 16:06:40 (6897)

2001-04-26 16:06:40# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[16:06]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Möller vitnaði í orð Lúðvíks Bergvinssonar frá 1. umr. áðan þar sem hann tók sérstaklega fram að mjög gott væri ef hægt væri að kæra ákvörðun ríkissaksóknara til dómsmrh. og afgreiða á þann hátt sem þessi breyting kveður á um. Síðan kom annað hljóð í strokkinn. Svo les maður nefndarálit minni hluta þar sem er verið að tala um sérlög, gott og vel. Hv. þm. talaði aldrei um að fara þessa leið í allshn. Allt í lagi með það. Síðan liggur hér fyrir tillaga frá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni og öðrum þingmanni Samfylkingarinnar um að fara leið þar sem almenn heimild er sett inn í lögin.

Herra forseti. Ég vil fyrir mitt leyti segja að mér finnst hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafa farið stóra hringi í þessu máli. Ég tel afar mikilvægt að við getum orðið við þeim kröfum í samfélaginu að mál upplýsist. Ég er margoft búin að ítreka það, bæði í fyrstu ræðu minni og í andsvari áðan, að það er ekki verið að ógna sjálfstæði ákæruvaldsins af því að við erum ekki að tala um rannsóknir á málum sem leiða til ákæru.

Þegar ríkissaksóknari ákveður rannsókn --- ég er ekki að tala um að ákveða ákæru --- þá er það mál sem hann telur líklegt að leiði til ákæru. Það er ekki verið að ræða um þannig mál hér heldur er verið fara fram á að hægt sé að endurskoða synjun ríkissaksóknara um rannsókn á máli sem leiðir ekki til ákæru. Það er verið að tala um að hægt sé að endurskoða synjun ríkissaksóknara á rannsókn á máli. Ég tel fullkomlega eðlilegt að þeim kröfum samfélagsins verði mætt um að slík mál upplýsist.