Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 16:47:05 (6907)

2001-04-26 16:47:05# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[16:47]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða fer að verða dálítið skemmtileg. Einasta og haldbærasta röksemd hæstv. ráðherra fyrir þeirri hugmynd sem hún er að tala fyrir er sú að ég hafi skipt um skoðun. Einhvern veginn hrökkva allir í þá umræðu að ég hafi skipt um skoðun. Ég ætla að lesa upp úr þeirri ræðu sem ég flutti vegna þess að hún var í kjölfarið á því að Alþingi hafnaði afbrigðum í öryrkjamálinu. Þar sagði ég, með leyfi forseta:

,,Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum nú kemur þannig inn á þingið að ekki gafst mikill tími til að undirbúa sig fyrir umræðuna enda lágu þinggögn ekki fyrir í hliðarherbergjum þegar málið var tekið á dagskrá og því þurfti að bíða örlítið eftir að geta nálgast þau.``

Þegar menn hafa farið yfir gögnin, farið yfir þær skoðanir og þær röksemdir sem hafa komið fram og séð það að þetta er algerlega fráleit hugmynd, þá skipta menn um skoðun. Kannski má segja sem svo að þetta hafi ekki verið fullmótuð skoðun en það má svo sem deila um það. Kjarninn er einfaldlega þessi að sú einasta röksemd sem hv. þm. hafa úr stjórnarliðinu er sú að sá er hér stendur hafi skipt um skoðun.