Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 16:50:46 (6909)

2001-04-26 16:50:46# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[16:50]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eftir því sem ég best veit er þetta umrædda Nørrebro-mál ekki til lykta leitt og mér er ekki ljóst hvernig því lýkur. Sú leið sem Danir fóru í þessu tilviki hefur e.t.v. ekki reynst heppileg. Ég skal ekkert um það dæma.

En ég er auðvitað sammála hv. þm. um að þetta er stór og mikilvæg ákvörðun sem þarf að taka en þetta eru ekkert sérstaklega stríð viðbrögð hjá þingmönnum stjórnarflokkanna. Þetta er málefnaleg umræða. Við erum að ræða um alvörumál. Ég er alveg sammála hv. þm. um það. En að ég hafi nefnt hann og einhverja fleiri til sem afturgöngur í þessu máli, þá held ég að það sé alger misskilningur. Það sem ég var að fjalla um í ræðu minni áðan voru þessar breytingar sem höfðu verið gerðar á réttarfarinu og dómstólaskipan og skipulagi löggæslu og ákæruvalds á síðasta áratug. Það horfir vissulega til framtíðar, það hefur reynst vel en engu að síður virtist sem nokkrar afturgöngur frá tímanum fyrir breytingarnar væru enn þá á sveimi og þar er að sjálfsögðu ekki átt við hv. þm. En það er auðvitað það sem ég nefndi áðan í þeim stóru og alvarlegu málum sem við höfum rætt um eins og hefur verið bent á, í Guðmundar- og Geirfinnsmálum þar sem ýmsir telja að sé ástæða til þess að fá betri upplýsingar.