Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 17:37:07 (6913)

2001-04-26 17:37:07# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[17:37]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var heilmikil ræða hjá hv. þm. og hún var í eins konar umvöndunartón. Það er nú gott að fá leiðbeiningar hjá þingmanninum, t.d. þess efnis að ekki eigi að líta of mikið á forsíður blaðanna eða tala við fréttamenn. Ég held að engin ástæða sé til þess að hv. þm. þurfi að hafa áhyggjur af því í sambandi við þetta mál.

Hér er auðvitað um að ræða vandmeðfarið mál sem við þurfum að ræða á málefnalegan hátt. En hv. þm. beindi til mín spurningu varðandi þá brtt. sem hann ásamt hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni hefur lagt fram og spurði hver væri hættan af þessari málsmeðferð. Ég svaraði því til að hættan væri m.a. sú að málsmeðferðin hafi það í för með sér að fram fari efnisleg umræða um viðkomandi mál á hinu háa Alþingi í stað þess að sjálfstæður saksóknari fjalli um rannsókn málsins.

Staðreyndin er sú að hlutverk Alþingis er að setja almennar leikreglur fyrir samfélagið og stjórnsýsluna. Alþingi fer ekki með rannsókn mála. Alþingi á að setja almennar reglur um hvaða skilyrði eigi að vera fyrir því að opinber rannsókn fari fram en ekki að fjalla um efnisatriði tiltekinna sakamála. Hér er um að ræða gott dæmi um muninn á hlutverkum löggjafans og framkvæmdarvaldsins.

Ég vil undirstrika að hér er um að ræða mjög þröngt frávik og það eru aðeins afar sérstök mál sem koma til skoðunar og þau eru bundin sérstökum skilyrðum líka.