Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 17:39:21 (6914)

2001-04-26 17:39:21# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[17:39]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það var ástæða fyrir því að ég fór aðeins yfir áhrif almenningsálitsins, blaða- og fréttamanna á gang mála. Ástæðan var einfaldlega sú að það mál sem hér um ræðir og er kveikja alls þessa var að sumu leyti, því miður, til lykta leidd í slíkum blæstri. Sá sem hér stendur er ekki saklaus fremur en margur annar í þeim efnum, starfaði raunar sem blaðamaður á þeim tíma og man afskaplega vel hvernig almannarómur, blaðafréttir, kröfðust þess af rannsóknaraðilum að árangri yrði náð og ekki seinna en núna. Ég held að það sé ein skýringin á því að margt hafi kannski farið miður við rannsókn málsins, því miður. (Gripið fram í.) Ég var að vekja á því athygli að þess vegna verði hv. þm. að láta ekki slíkt ytra áreiti trufla dómgreind sína, hv. þm. Ásta Möller.

Varðandi ótta hæstv. dómsmrh. á því að með því að koma með mikilvæg mál sem þörf er á að rannsaka inn á Alþingi mundu menn missa sig í efnisumræðu um málin þá hygg ég að það yrði í algerum undantekningartilfellum og alls ekki í því máli sem hér um ræðir og er kveikja alls þessa. En það getur hins vegar verið að full þörf sé á því af því að ég sé hér í nál. meiri hluta allshn. að það er vísað sérstaklega til þess um hugsanleg brot í opinberu starfi. Auðvitað kann það að vera að Alþingi og alþingimenn vilji láta sig það varða og ræða það efnislega. Stundum getur vel verið að það sé ósköp eðlilegt. Ég er þess fullviss og sagði það áðan að verði sú leið ofan á sem stjórnarmeirihlutinn vill þá lokar það ekki fyrir það að hið háa Alþingi ræði málið utan dagskrár ef ekki vill betur.