Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 18:08:10 (6918)

2001-04-26 18:08:10# 126. lþ. 113.10 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[18:08]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það frv. til laga um áhafnir íslenskra skipa sem hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir er að hluta til framhald af vinnu og frv. sem var flutt hér á liðnu þingi um sama mál, en fékk þá ekki afgreiðslu.

Ég vil fyrst víkja að því sem hæstv. ráðherra greindi frá, að hann mundi senda hv. samgn. bréf þar sem hann óskaði eftir því að þetta frv. mundi núna í umfjöllun einungis ná til farþegaskipa og flutningaskipa en ekki fiskiskipa. Ég vildi aðeins heyra nánar hvernig það er hugsað. Er það hugsað þannig að kaflinn um fiskiskip verði algjörlega felldur brott úr umfjölluninni núna þannig að ekki sé ætlast til þess að nefndin fjalli neitt um þann kafla og hann verði bara felldur úr þessu frv., þ.e. fari svo eftir sem hæstv. ráðherra óskar þegar frv. kemur úr nefnd, þá verði sá kafli ekki inni í því frv.? Gildir þá líka sama um kaflann um varðskip og kaflann um skemmtibáta sem hæstv. ráðherra minntist ekki á og ýmis önnur skip? Það skiptir máli í þessari umfjöllun hvort bara eigi að fresta málinu eða hvort lagafrv. sjálft kom fram en þá séu þessir kaflar ekki þar inni. Mér finnst þægilegra að fá það strax alveg ljóst.

Ég tek að öðru leyti undir mikilvægi þess að þetta mál fái hér afgreiðslu eins og hæstv. ráðherra hefur greint frá.

Ég vildi aðeins koma með ábendingar og gera athugasemdir við 3. gr. frv. þar sem fjallað er um menntun og þjálfun. Þar er greint frá því að sjómannaskólar sem annast menntun og þjálfun áhafna íslenskra skipa skuli að lágmarki uppfylla ákvæði laga þessara og reglugerða samkvæmt þeim, alþjóðasamþykktarinnar, fiskiskipasamþykktarinnar og samnings um Evrópska efnahagssvæðið hvað varðar nám og kennslu. Og nám og kennsla í Sjómannaskólanum skal vera samkvæmt viðurkenndu gæðastjórnunarkerfi.

Í frv. er Siglingamálastofnun almennt falið að fylgja eftir bæði faglegum kröfum og fylgja því eftir að skírteini uppfylli bæði innlend og alþjóðleg skilyrði og kröfur. Þarna stendur í 2. mgr. 3. gr.:

,,Starfsgreinaráð um sjávarútvegsgreinar og siglingar, sem starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla, gerir tillögu til menntamálaráðherra, að fenginni umsögn Siglingastofnunar Íslands, um námskrár sjómannaskóla.``

Mér fyndist vel athugandi að snúa þessu við eða hafa það öfugt, þ.e. að Siglingastofnun eða samgrn. bæri í raun ábyrgð á náminu í heild sinni og þá líka réttindunum og kröfunum eins og þarna er síðan gert ráð fyrir, en að fenginni umsögn og tillögu starfsgreinaráðs á vegum menntmrh. Það væri í eðlilegri takti við þá ábyrgð sem Siglingastofnun og samgrn. er falin við eftirlit og faglega þróun þessa náms.

Í 4. mgr. 3. gr. stendur:

,,Menntamálaráðuneytið hefur eftirlit með að námskrár sjómannaskóla uppfylli kröfur alþjóðasamninga og Siglingastofnun Íslands hefur eftirlit með að nám við sjómannaskóla uppfylli kröfur alþjóðasamninga.``

Herra forseti. Nám og námskrá eru í sjálfu sér sami hluturinn. Þetta eru bara tvö nöfn á því sama eftir því hvar það er, en nám er tilgreint samkvæmt námskrá. Því væri miklu eðlilegra og hreinna að þarna væri bara einn aðili sem með eðlilegum hætti bæri ábyrgð á þessu að fenginni faglegri umsögn hins aðilans. Ég teldi að þetta væri miklu hreinna og eðlilegra því áfram í öllum greinum sem lúta að skírteinum og kröfum um réttindi, er það Siglingastofnun Íslands sem gefur út alþjóðleg skírteini og áritar samkvæmt lögum þessum. Og í síðustu málsgrein í 4. gr. stendur:

,,Siglingastofnun Íslands heldur skrá yfir útgefin skírteini.``

Og í 6. gr. stendur:

,,Siglingastofnun Íslands viðurkennir erlend skírteini í samræmi við lög þessi og reglugerðir samkvæmt þeim, alþjóðasamþykktina ... `` o.s.frv.

Það er því alls staðar í frv., sem ég tel alveg hárrétt, að Siglingstofnun og samgrn. hefur hina faglegu þekkingu til að bera til þess að taka á þessu máli og fylgja því eftir. Því er eðlilegt að hún beri ábyrgð á því heilt í gegn.

Ég mundi því leggja til að þetta yrði skoðað. Þetta er í sjálfu sér engin efnisbreyting á því sem hér er verið að fjalla um, heldur að ábyrgðin sé eðlileg, skýr út í gegn. Námskrá og nám eru bara tvö nöfn á því sama.

Herra forseti. Þetta mál fer til samgn. þar sem ég á sæti og verður þar til frekari umfjöllunar. Ég vildi koma þessu á framfæri, í fyrsta lagi spurningum um það hvernig hæstv. ráðherra líti á það hvaða stöðu aðrir kaflar um önnur skip eiga að hafa í frv., í meðferð nefndarinnar og vinnu hennar og hins vegar að gætt sé fullrar og eðlilegrar ábyrgðar og samræmis í eftirliti með menntun og menntunarkröfum og réttindum sem hér er verið að fjalla um.