Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 18:23:49 (6922)

2001-04-26 18:23:49# 126. lþ. 113.10 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[18:23]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég tek undir það sem síðasti ræðumaður kom inn á og fagna því að hæstv. samgrh. skuli hafa tekið þann kafla út úr frv. til laga um áhafnir íslenskra skipa sem snýr að fiskiskipum.

Vissulega er það svo þegar deilur eru jafnhatrammar og nú ber við í deilu fiskimanna og útgerðarmanna fiskiskipa þá er vissulega vandmeðfarið slíkt mál sem hér hefur verið lagt fram og snýr að mönnun fiskiskipa og þeim viðbrögðum sem samtök sjómanna hafa sýnt varðandi þau áform sem fyrirhuguð voru í þessu frv.

Hins vegar verð ég að segja að það er einnig mjög nauðsynlegt að þetta mál nái fram að ganga svo fljótt sem verða má og fyrir þinglok með tilvísan til þess sem hefur áður komið fram, bæði hjá hæstv. samgrh. og öðrum sem hafa hér talað um þau alþjóðaskírteini sem nauðsynlegt er að Íslendingar hafi undir höndum sem eru starfandi á kaupskipum erlendis. Þeir hafa oftar en ekki á liðnum mánuðum lent í vanda vegna eftirlitsaðila í erlendum höfnum sem hafa ekki að fullu sætt sig við þau skírteini sem íslenskir sjómenn hafa lagt fram vegna þeirra ákvæða, bæði um hina alþjóðasamþykkt STCW, varðandi það nám sem þeir hafa öðlast á Íslandi og er nú viðurkennt af Alþjóðasiglingamálastofnuninni.

Einnig er fram undan mál sjómannamentunnarinnar á Íslandi og hefur aðeins verið komið hér inn á það. Fram undan eru líka ákvæði þessara alþjóðasamþykkta sem kveða svo á um að hásetar á kaupskipum skuli líka hafa gengið í gegnum ákveðna þjálfun og fengið skírteini til þess að þeir séu viðurkenndir gagnvart eftirlitsaðilum --- þeirra aðila Port statement, sem er orðið svo, ef ég man rétt, að eftirlitsmenn siglingamálastofnunar hverrar þjóðar eigi a.m.k. að skoða eitt af hverjum tuttugu og fimm erlendu kaupskipum sem koma í höfn. Þá verða menn að hafa tilskilin skírteini og réttindi, svo ekki þurfi annaðhvort að skipta um áhöfn eða skipið stöðvað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Sjómannaskóli Íslands, sem svo heitir og var hér til umræðu aðeins í gær, blandast inn í þessa umræðu. Kannski sló ég heldur í léttan dúr þegar ég var spurður að því hvaðan ég hefði þá nafngift að kalla skólann Sjómannaskóla Íslands, ég sagðist hafa lesið það í símaskránni. En auðvitað eru orð miklu alvarlegri en það því þetta stendur í blýhólknum sem lagður var að hornsteini Sjómannaskóla Íslands þegar þar var lögð inn svokölluð skýrsla um það hverjir væru þá í ríkisstjórn og hver var borgarstjóri o.s.frv. Skólinn hefur mikla nafngift og stendur undir væntingum og þarf auðvitað að búa sig undir að taka við miklu fleiri nemendum en nú er a.m.k.

Annar kapítuli í málinu er hins vegar áhyggjur manna almennt sem koma nálægt sjómannastéttinni. Í svari samgrh. við fyrirspurn minni um hvað þyrfti marga skipstjórnarlærða menn, þ.e. vélstjóra og stýrimenn, árlega til að halda við þeim flota sem er nú til á Íslandi, kemur fram að það þurfi að meðtalali 100 manns á ári úr hvorum skóla. En nú eru aðeins 50 nemendur í Stýrimannaskólanum og innan við 100 í Vélskólanum. Hér þarf því virkilega verk að vinna.

Þess vegna hefur mér verið mikið áhyggjuefni á umliðnum árum sú starfandi undanþágunefnd sem svo hefur heitið og hefur verið skipuð fulltrúum stéttarfélaga sjómanna og útgerðarmanna og hvar ég tel, og það er álit mitt, að óhönduglega hafi farið með undanþáguveitingar á þeim bæ. Kannski er það orsökin fyrir því hve skólarnir eru illa sóttir.

Það kemur svo aftur annar kapítuli þar inn í sem kom fram í svari hæstv. menntmrh. í gær við fyrirspurn minni um hvernig væri skipting á milli námsgreina, annars vegar hinna bóklegu og hinna verklegu. Þar kemur í ljós að við erum á allt öðru róli en aðrar Norðurlandaþjóðir með yfir 70% ungmenna á Íslandi sem ganga hina bóklegu menntabraut en rétt rúmlega 20% ganga hina verklegu. Þar af eru rétt rúmlega 10% sem eru skráðir í iðnmenntun. Þetta er í öfugu hlutfalli við það sem er annars staðar á Norðurlöndunum. Þar fara fleiri í verkmenntaskólana og færri í hið bóklega nám. Hér er eitthvað alvarlegt á seyði sem við þurfum vissulega að taka á.

[18:30]

Eru Íslendingar að ala það upp í ungu fólki að það sé engin framtíð öðruvísi en að hafa setið á skólabekk fram undir þrítugt? Erum við að ala það upp í ungu fólki að sjósókn eða verkkunnátta, verkmenntun, sé eitthvað sem eigi að forðast? Hér er vissulega verk að vinna og þarf að taka á. Ef svo heldur sem horfir verða ekki margir til að sinna því grundvallaratriði hjá okkur Íslendingum að stunda sjósókn og fiskveiðar sem hefur gefið okkur meginhluta erlendra gjaldeyristekna og hefur verið undirstöðuatvinnuvegur Íslendinga og leitt okkur til þess sjálfstæðis sem við búum við nú.

Þess vegna er dálítið sérstakt þegar skoðað er hvernig eigi að fara með mál sem lúta að menntun sjómanna, hvernig tillögurnar eigi að berast til skólans. Hverjir eigi að vera eftirlitsaðilar með menntuninni? Þar koma til samgrn., Siglingastofnun og menntmrn.

Hvernig má vera að skóli eins og Sjómannaskóli Íslands er settur undir menntmrn. en ekki bændaskólarnir? Er einhver sem kann skýringar á því? Ég spyr: Ef við erum að gefa íslenskum ungmennum kost á framhaldsnámi úr hvaða skóla sem er, hvers vegna eru þá bændaskólarnir ekki inni í menntakerfinu og undir menntmrn.? Getur það kannski verið að við höfum valið ranga leið, að það sé röng stefna að hafa Sjómannaskólann undir menntmrn.? Hefði hann kannski frekar átt að vera undir samgrn.? Það styttir a.m.k. leiðina. Það er bein lína milli Siglingastofnunar og samgrn. og kæmi þá ekki til kasta menntmrn. í því sambandi.

Þetta er mál sem þarf skoðunar við með tilliti til framtíðarinnar, með tilliti til þess hvort við Íslendingar ætlum yfir höfuð að stunda sjósókn og sjávarútveg af þeim krafti sem við höfum gert fram að þessu.

Þess vegna fagna ég því og er þar á öndverðri skoðun við marga aðra fyrrum félaga mína til sjós að hér skuli vera tekið út úr því sem áður var undanþágunefnd, en sett þess í stað úrskurðarnefnd siglingamála, sem hafi endanlegt ákvörðunarvald á stjórnsýslustigi og verður hægt að skjóta til hennar ákvörðunum Siglingastofnunar Íslands samkvæmt lögum, svo sem um útgáfu skírteina, áritana, veitingu undanþágna og mönnun skipa.

Ekki er eðlilegt að þeir sem hafa menntað sig í Stýrimannaskólanum eða Vélskólanum skuli að afloknu prófi lenda í því að sitja í einhverri undanþágunefnd sem veitir öðrum heimild til að setjast í störf stýrimanns eða vélstjóra án þess að fara í skólann án þess að hafa lokið tilskyldu prófi. Eftir að hafa horft upp á þær undanþáguveitingar sem hafa verið í gegnum árin, þær skipta hundruðum, eru menn þá undrandi á því af hverju er ekki sótt meira í skólann en raun ber vitni?

Herra forseti. Ég sit í hv. samgn. þar sem þetta mál mun væntanlega koma til umfjöllunar. Ég mun leggja mig fram um það með vísan til þess sem ég sagði í upphafi, í ljósi þeirra vandræða sem margir Íslendingar eiga nú við að etja sem starfa á erlendum skipum, siglandi milli hafna erlendis. Þeir hafa margsinnis haft samband við mig og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson og hv. þm. Kristján Pálsson þar sem við höfum allir komið að sjósókn og þekkjum marga menn sem eru enn þá starfandi og hafa lent í þessum vanda.

Brýn nauðsyn er því á að hér verði gerð lagfæring á þessum hlutum og mun ég ekki láta mitt eftir liggja varðandi þetta mál. Ég fagna því að út úr þessu frv. til laga um áhafnir íslenskra skipa skuli hafa verið tekin ákvæði sem varða fiskiskipin.

Ég held að í ljósi þess sem hefur gerst, þó útgerðin tali mjög um að tækniþróunin hafi orðið slík að það sé sjálfsagt og eðlilegt að fækka mönnum, þá hafi menn kannski lent í þeirri kórvillu að horfa eingöngu á vélar, aðalvélar skipsins, og segja: Það er samþjappað afl, minnkandi vélar, en um leið gleyma menn öllu því sem fylgir nú best útbúnu íslensku fiskiskipunum. Öllum þeim búnaði sem þarf t.d. til þess að reka fljótandi frystihús eins og nú eru á hafi úti með öllum tilheyrandi ljósavélum, frystivélum, færiböndum o.s.frv. Mikil vinna er lögð á herðar hvers einasta manns. Við stöndum frammi fyrir því að 18--22 manna áhöfn afkastar á við 70 manna frystihús. Það segir sig sjálft að það hlýtur að vera mikið álag á því fólki sem vinnur um borð í frystiskipunum auk þess sem er náttúrlega að gerast líka á öðrum skipum.

Þetta vilja útgerðarmenn ekki horfa á. Í aðra röndina er sagt: Aflinn á bak við hvern íslenskan fiskimann er á heimsmælikvarða, er það mesta sem þekkist og gerist. En á hinn bóginn er sagt: Já, nei, við þurfum að fækka. Menn eru því ekki alltaf sjálfum sér samkvæmir þegar rætt er um þessa hluti.

Hitt er annað mál, og það hefur nú þegar gerst, að á kaupskipunum voru ákvæði um fjölda, t.d. háseta. Á því voru gerðar breytingar af hálfu stéttarfélags háseta, Sjómannafélags Reykjavíkur, og gengið til móts við útgerðarmenn kaupskipa. Þar var samkomulag um að manna skipin eftir þörfum en auðvitað er öryggismönnun alltaf lágmark. Þar hefur orðið geysileg breyting og þróun og menn hafa lagað sig að því. Auðvitað kemur fljótlega í ljós hvort skip eru vanmönnuð eða ofmönnuð vegna þess að það liggur í hlutarins eðli að útgerðarmaður kaupskipa mun ekki manna skip sitt svo illa að það haldi ekki áætlun. Útgerðarmaður fiskiskips mun heldur ekki manna skipið þannig að það fiski ekki eðlilega vegna þess að það vanti fólk. Það er því ákveðin kórvilla í þessari hugsun um fækkun í áhöfn fiskiskipanna. Það þarf auðvitað að skoða.

Ógæfan er kannski sú að ekki er traust á milli þessara aðila. Ekki er traust á milli útgerðarmanna og sjómanna. Því þarf auðvitað að breyta. Það þarf að breyta þessum móral á milli sjómanna annars vegar og útgerðarmanna hins vegar.

Ég vona að ekki verði gripið inn í þessa kjaradeilu og þeir leysi mál sín af kostgæfni og til heilla þannig að upp megi takast gott samstarf þessara aðila í milli. Það verður til góðs, ekki bara sjómannastéttinni heldur þjóðinni allri.