Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 18:38:44 (6923)

2001-04-26 18:38:44# 126. lþ. 113.10 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[18:38]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst í andsvari mínu taka undir orð hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar um mikilvægi menntunarinnar og áhyggjur hans af stöðu og þróun þeirra mála, bæði hvað varðar störf á skipum sem og víða annars staðar í samfélaginu, sérstaklega hvað tæknigreinar varðar.

Ég verð á vissan hátt að taka undir spurningar hans um hvort vistun þessa náms sé á réttum stað. Hv. þm. minntist hér á búnaðarskólana, þeir hafi ekki farið undir menntmrn. Ég tel, af því að ég þekki þar til, að það hafi verið rétt ákvörðun af hálfu stjórnvalda, að búnaðarskólarnir færu ekki undir menntmrn. Það skiptir svo miklu máli í rekstri á slíkum skólum að þeir hafi bein og náin tengsl, skólinn og atvinnulífið og ekki bara atvinnulífið, heldur einstaklingarnir sem eru í atvinnulífinu, þ.e. að þau tengsl séu bein og náin þannig að hvor aðili viti nákvæmlega hvað hinn er að gera og fái að taka þátt í því.

Sveigjanleikinn, það að geta brugðist við, skiptir öllu máli í slíku námi og slíkri menntun. Því menntun til starfsnáms miðar að því að gera viðkomandi að manni, að hann sé fær um að gera hlutina en ekki bara að tala um þá.

Ég tel að virkilega ástæða sé til þess að skoða stöðu verknáms og verklegs náms eins og það nám sem við ræðum hér um.