Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 18:41:05 (6924)

2001-04-26 18:41:05# 126. lþ. 113.10 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[18:41]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Eiginlega er erfitt fyrir mig að koma upp í andsvar við hv. síðasta ræðumann. Hann var svo sammála mér.

Ég verð þó að segja að ég teldi að það væri af hinu góða og var aðeins að ýja að því áðan hversu nauðsynlegt það væri að sátt tækist og trúnaður og traust ríkti milli útgerðarmanna annars vegar og sjómanna hins vegar. Það mundi væntanlega leiða til þess að þessir aðilar setjast í skólanefnd Sjómannaskóla Íslands, takast á við þau mál sem þar blasa við, eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á, vöntun nema inn í skólann.

Við stöndum auðvitað frammi fyrir því að tíminn og umbreytingarnar og hin mikla ferð sem er nú á þjóðlífinu veldur því að eðlilegt væri að þessir aðilar settust í skólanefnd og fjölluðu um þetta mál og mundu laga menntunina að nútímanum og þeirri kröfu sem gerð er í dag til þekkingar sjómannsins. Sumir segja að það væri óalandi og óferjandi að hleypa útgerðarmönnum nálægt slíku og þeir mundu helst vilja leggja menntunina niður. Hér er náttúrlega talað út í loftið. Engin rök skynsamleg rök liggja að baki þessu.

Ég tel að það væri skynsemi í því að menn einbeittu sér að því að skoða þetta merkilega starf sem við þurfum að fá fleiri aðila að inn í skólann. Það þarf að skoða þetta, laga þessa menntun að núinu eins og sagt er á nútímaíslensku.