Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 18:45:20 (6926)

2001-04-26 18:45:20# 126. lþ. 113.10 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[18:45]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. síðasti ræðumaður ýjaði að það er nauðsynlegt, og okkur Íslendingum er nauðsynlegt, að leggja meira kapp á og meira upp úr því að ungt fólk fáist í verkmenntun, en á það skortir mjög.

Ég kom aðeins inn á undanþágumálin hér áðan. Hundruðum einstaklinga er veitt undanþága á hverju ári. Hafa menn hugleitt það að gott fiskiskip, fullbúið, kostar nú orðið yfir milljarð? Eitt stýrishús búið fullkomnum tækjum kostar 200-300 milljónir, búnaðurinn í vélina annað eins.

Ef ég sæki um undanþágu nú, hafandi ökuskírteini, og vildi fara að keyra mótorhjól og ætla að sækja um undanþágu til þess hjá lögreglunni, þá kemur það ekki til greina. Það kemur bara ekki til greina. Ég verð að setjast á skólabekk og taka minn tíma til þess að læra á mótorhjól. En hundruðum manna er veitt undanþága til þess að stýra skipi sem kostar á annan milljarð. Hvers konar lógík er þetta?

Ég vona svo sannarlega að þeir sem hafa verið andsnúnir mér, gegn afnámi undanþágu og aðkomu menntaðra skipstjórnarmanna og vélstjórnarmanna, verði nú sammála mér um að við skulum láta ríkisvaldið bera ábyrgð á því ef þeir ætla að veita einhverjum undanþágu til þess að sigla skipi sem kostar á annan milljarð, að maður tali ekki um mannslífin sem ógnað er með því að hleypa ómenntuðu fólki í skipstjórn, í brú eða niður í vél. Hér er tími til að taka á og það verður væntanlega gert. (JB: Þetta var bara gott.)