Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 18:48:10 (6927)

2001-04-26 18:48:10# 126. lþ. 113.10 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[18:48]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir ýmislegt af því sem sagt hefur verið um þetta mál, m.a. fagna ég því að hæstv. samgrh. hefur dregið til baka III. kaflann, ekki vegna þess að ég sé ósammála honum heldur vegna þess að nauðsynlegt er að leysa þá erfiðu sjómannadeilu sem nú stendur yfir og er náttúrlega allsendis óásættanlegt að skuli ekki enn vera leyst. Þetta mál sem ég hef nú ekki talið að væri það stórt að það ætti að stranda á henni virðist þó vera akkillesarhæll. Og þar með er hann farinn. Ég ætla því rétt að vona að samninganefndarmenn taki þá til sinna ráða og ljúki þessari deilu. Það ætti varla neitt að vera því til trafala.

Herra forseti. Ég sé að búið er, samkvæmt þessu frv. eins og kemur fram í 9. gr., að lagfæra þá vankanta sem á frv. voru á síðasta þingi, þar sem hið svokallaða pungapróf var farið að teygja sig upp í yfir 70 brúttótonn. En það er hér fært úr 30 brúttórúmlestum upp í 50 brúttótonn, sem er þá í rauninni óbreytt ástand.

Svo er aftur annað mál með þessi blessuðu pungapróf. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson ræddi hér mikið um það hvers vegna undanþágur væru endalaust leyfðar til skipstjórnarmanna sem ekki hefðu næga menntun. Meðan verið er að veita mönnum þessi pungaprófsréttindi þá verður þetta alltaf svona. Það er ljóst að stór hluti fiskveiðiflotans er mannaður þeim sem hafa pungapróf.

Allir krókabátar undir 6 tonnum eru meira og minna mannaðir ómenntuðu fólki, enda ekki krafist meiri menntunar.

Krókabátarnir eru að taka við hlutverki vertíðarflotans og þess vegna er það niðurstaðan að Sjómannaskólinn er að tæmast því að á fraktskipunum sem hingað sigla eru að mestu leyti útlendingar sem hafa ekki þurft að ganga undir nein réttindapróf á Íslandi. Þetta er því miður raunin og við ætlum ekki að bera gæfu til þess að leiðrétta það þannig að vel fari.

Herra forseti. Ég vil bara að lokum segja að það hlýtur að vera eðlileg krafa hjá þeim sem reka hin stærri vertíðarskip að hægt sé að breyta mönnun. Það er ekki nein bábylja útgerðarmanna að tæknin hefur breyst mikið. Vélarnar hafa breyst mikið. Skipstjórnarmenn uppi í brú eru að stjórna vélinni um leið og þeir stjórna skipinu. Það þarf ekki að vera með vélstjóra á vakt við hliðina á þeim allan tímann. Mér finnst mjög eðlilegt að samræma þetta. Þess vegna hlýtur þetta að koma inn síðar. Það er mjög eðlileg krafa útgerðarmanna að reyna að minnka útgerðarkostnað en láta áhöfnina um leið njóta þess sem hefur verið til umræðu.

Það sem gerist með því er einfaldlega að við erum að tryggja frekar tilverurétt hinna svokölluðu verðtíðarskipa og sá afli sem hefur náðst inn á skipum í þeim stærðarflokki flytjist ekki smám saman í enn meira mæli en nú er til frystiskipanna.

Ég held að ekki sé hægt að stilla dæminu þannig upp að með því að breyta þessu séum við að torvelda aðsókn að Sjómannaskólanum. Ég held að það sé alveg öfugt. Ég hugsa að við mundum frekar tryggja að þessi útgerðarflokkur yrði rekinn áfram þannig að frekari þörf yrði á réttindamönnum en nú er.

Herra forseti. Varðandi undanþágurnar þá er ég alveg hjartanlega sammála því að undanþágurnar eins og þær hafa verið tíðkaðar á undanförnum árum hafa gengið út í algjörar öfgar. Það er löngu tímabært að reyna að leggja þær af. Ég lít svo á að með þessu frv. sé verið að gera það.