Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 18:53:32 (6928)

2001-04-26 18:53:32# 126. lþ. 113.10 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[18:53]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra foreti. Það er aðallega eitt atriði sem mér finnst þurfa að gera smá athugasemd við í málflutningi hv. þm. Kristjáns Pálssonar.

Það er náttúrlega ekki alveg rétt, hv. þm., að allir smábátar séu bara mannaðir með þeim sem hafa 30 brúttórúmlesta réttindi. Margir eru með full réttindi á smábátaflotanum og það er auðvitað afleiðing þess að stærri skip hafa horfið úr mörgum byggðarlögum. Ég þekki það t.d. vestur á fjörðum að fullt af mönnum hafa full réttindi á öll fiskiskip, hvaða stærð sem er, sem stunda veiðar á 6 tonna bátum núna. Hitt er alveg rétt að auðvitað er ekki krafist meiri réttinda á smábátana en 30 brúttórúmlesta réttinda, eða svokallaðs pungaprófs sem því miður hefur svo oft verið notað, alveg eins og þingmaðurinn kom réttilega að til þess að veita undanþágur út á á stærri skip. Og það er atriði sem menn verða virkilega að skoða og hefur kannski verið of mikið praktíserað, þ.e. að veita mönnum miklu meiri réttindi út á það að þeir hafi réttindi í næstlægstu stöðu fyrir neðan eins og viðmiðunarreglurnar í undanþágunefndinni hafa verið.

Varðandi hins vegar mönnun skipanna, sem mig langar aðeins að víkja að líka og hv. þm. ræddi, þá virkar það í báðar áttir. Það er t.d. mjög algengt, þó krafan sé ekki sú að 2. stýrimaður skuli vera á skipum fyrr en þau eru komin yfir 300 lestir, þá er samt mjög algengt að útgerðarmenn manni með 2. stýrimanni skip undir 300 lestum.