Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 19:03:55 (6933)

2001-04-26 19:03:55# 126. lþ. 113.10 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[19:03]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson séum ekki mjög ósammála í þessu. Auðvitað er það hárrétt hjá hv. þm. að það getur skapað einhverja hættu að sinna mörgu í einu. Það er nú samt orðið svo í þessum skipum að stjórntækin eru við hendina, menn hafa þetta nánast í fanginu, að stýra skipinu, stjórna vélinni og hífa inn trollið eða línuna. Því fylgir ekki eins mikil hætta, held ég, og hv. þm. heldur.

Að sjálfsögðu er meiningin sú að fækka um borð í skipunum af skynsemi. Það hefur hins vegar tekið allt of langan tíma að finna leiðir sem teljast skynsamlegar. Þar er engin lausn sjáanleg og náttúrlega mjög slæmt að þetta mönnunarmál hafi verið notað til að draga verkfall sjómanna á langinn, þ.e. notað sem átylla til þess að semja ekki. Það er einfaldlega til þess að drepa málinu enn frekar á dreif. Hverjum mun það koma í koll? Ég held að það komi vertíðarflotanum í koll og engum öðrum.