Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 19:05:34 (6934)

2001-04-26 19:05:34# 126. lþ. 113.10 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[19:05]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér hafa margir vísir skipstjórar og sjómenn komið og fjallað um þetta ágæta frv. og ég mun því ekki lengja umræðuna mikið.

Eins og fram hefur komið fjallar frv. um áhafnir íslenskra skipa. Ég sammála því sjónarmiði sem hér hefur komið fram, að verði það að lögum þá sé það fyrst og fremst til þess að stuðla að öryggi áhafna á íslenskum skipum. Eins og fram hefur komið er frv. byggt á tilskipunum Evrópusambandsins og alþjóðasamningum. Það fékk afskaplega ítarlega umfjöllun á síðasta þingi. Breytingar sem gerðar hafa verið á því eru allar til bóta í ljósi þeirra umræðna sem urðu hér á síðasta þingi. Ég held að því megi segja að frv. sé ekki til annars en að styrkja íslenskar áhafnir og ekki síst áhafnir íslenskra kaupskipa sem með frv. þessu, verði það að lögum, eiga greiðan aðgang að siglingum um heimsins höf.

Herra forseti. Ég fagna því sérstaklega að dreginn hafi verið til baka III. kafli þessa frv. Ég tel það mjög hyggilegt í þeirri erfiðu stöðu sem nú er uppi í verkfalli sjómanna. Efni III. kaflans er einn af þeim þáttum sem beinlínis snerta þetta verkfall og ég fagna yfirlýsingu ráðherra um að draga þann kafla til baka.

Í framhaldi af þeirri umræðu sem hér fór fram vil ég fara nokkrum orðum um gildi menntunar og stöðu sjómanna í íslenska menntakerfinu. Ég hygg að allir séu sammála um að menntun hefur fyrst og fremst það gildi að efla starfsfólk. Á hana má líta sem fjárfestingu, þar sem menntun á að leiða til þess að starfsfólk á einstökum sviðum verði betra og þar af leiðandi verðmætara. Í þessu tilviki leiðir menntun ekki síður til aukins öryggis.

Menn hafa gert að umræðuefni aðsókn í sjómannaskóla og stöðu sjómannanámsins í hinu íslenska skólakerfi. Menn hafa lýst yfir áhyggjum af minnkandi aðsókn í sjómannanám. Ég tek undir þær áhyggjur. Varpað hefur verið fram ýmsum skýringum á því hvers vegna dregið hafi úr aðsókninni. Á því eru örugglega margar skýringar en ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að ein skýringin á því að ungt fólk sækir ekki sjómannanám sé sú staðreynd að sjómannaskólar eru í raun sérskólar. Fyrir ungt fólk, jafnvel þótt það hafi áhuga á sjómennsku sem vissulega margir hafa, þá er það mjög stór ákvörðun að ákveða að fara t.d. í Stýrimannaskólann. Þar með tekur unga fólkið ákvörðun um að fara aðra leið en félagar þeirra sem flestir sækja hinn almenna framhaldsskóla. Félagslega er það afskaplega mikilvæg og erfið ákvörðun fyrir ungt fólk á þessum aldri. Hinn félagslegi þáttur skiptir afskaplega miklu máli þegar meginþorri félaganna heldur t.d. inn í fjölbrautaskóla í þeirri ákvörðun að slíta sig úr hópnum og jafnvel úr heimabyggð sinni til að sækja nám annars staðar.

Ég er sannfærður um það, og byggi það á reynslu minni af skólastarfi, að þetta sé ein skýringin á því að svo mikið hefur dregið úr aðsókn í þessa skóla sem raun ber vitni.

Jafnframt hef ég löngum gagnrýnt það að sjómennska, svo sem hásetanám, skuli ekki hafa verið til staðar í hinu almenna skólakerfi og þá í samstarfi framhaldsskólanna, mjög nánu og ítarlegu samstarfi hins almenna framhaldsskóla og atvinnugreinarinnar sjálfrar. Með því er í raun verið að senda þau skilaboð að jafnmikilvægt, erfitt og vandasamt starf og t.d. að vera háseti á skipi sé í raun ekki mikils metið. Með því að taka slíkt nám formlega inn í skólakerfið væru send út þau skilaboð að hér sé um, ef þannig má orða, alvörustarf að ræða, sem það sannarlega er, sem krefst ákveðinnar menntunar. Það þarf sannarlega menntun til að geta stundað sjó, hvort sem það er í vélarrúmi, á dekki eða uppi í brú. Þar má auðvitað bæði kenna um stjórnvöldum í gegnum tíðina og ekki síður atvinnugreininni sjálfri.

Segja má að undanþágur séu af sama meiði, í framhaldi af umræðunni hér um undanþágur hjá hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson áðan. En þessar undanþágur gilda auðvitað ekki bara um sjómenn. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi hér verðmæti skipa, öryggi mannslífa o.s.frv. en það má líka spyrja hvað það þýði, þótt kannski sé ekki um öryggi eða mannslíf að tefla, þegar veittar eru undanþágur inn í skólakerfið, hvaða langtímaáhrif það hafi á börn. Ég kann ekki svarið við því. Þannig mætti áfram telja.

Undanþágur eru veittar mjög víða og enginn má skilja orð mín svo að ég mæli með þeim. Þar þurfa menn einfaldlega að taka ákvörðun um hvort þeir ætli að standa fast við þær menntakröfur sem gerðar eru sem meginreglu og taka afleiðingunum af því ef loka á fyrir undanþágur. Ég hef sjálfur verið þeirrar skoðunar að hyggilegt sé að gera það af öryggisástæðum og af virðingu fyrir því sem menntunin á að fela í sér, einmitt vegna þess að gildi menntunar felur í sér verðmætara starfsfólk, betra starfsfólk og þar af leiðandi verðmætara. Betra starfsfólk felur líka í sér öryggi.

Með þessu er ég í raun að leggja áherslu á gildi menntunar. Út á það gengur þetta frv. og ég fagna því. Ég legg áherslu á að ég tel að ætti að auka þátt menntunar fyrir sjómennsku í hinu almenna skólakerfi til þess að ungt fólk eigi meiri möguleika á henni án þess að slíta sig frá félögum sínum.

Ég ítreka jafnframt ánægju mína með það að III. kafla frv. skuli í raun hafa verið slegið á frest eða hann felldur úr.