Viðvera stjórnarþingmanna

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 10:38:41 (6952)

2001-04-27 10:38:41# 126. lþ. 114.91 fundur 492#B viðvera stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[10:38]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Vegna þess að rétt skal vera rétt og það sem hér er sagt er skráð í þingtíðindi þá vil ég leiðrétta það sem fram kom í máli hæstv. forseta áðan, að aðeins 10 þingmenn stjórnarandstöðunnar væru í húsi samkvæmt skráningu. Svo kann að hafa verið skráð en þá er skráningu ábótavant því að þegar hann gaf þær upplýsingar voru hér í salnum 13 þingmenn stjórnarandstöðunnar og fleiri munu hafa verið í húsinu.

Stjórnarandstöðuþingmenn hafa í dag mætt til þings samkvæmt dagskrá sem prentuð var í morgun. Þá var gert ráð fyrir því að gengið yrði til atkvæðagreiðslu kl. 10.30. En vegna þess að þingmenn stjórnarliðsins mæta ekki til vinnu sinnar, mæta ekki til þings, þá er ákveðið að skjóta þessari atkvæðagreiðslu á frest. Þetta hefur gerst aftur og ítrekað og þetta eru vinnubrögð sem við sættum okkur ekki við. Við mótmælum þeim og óskum eftir því að stjórn þingsins taki þessi mál til alvarlegrar skoðunar.