Viðvera stjórnarþingmanna

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 10:40:35 (6953)

2001-04-27 10:40:35# 126. lþ. 114.91 fundur 492#B viðvera stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), Forseti GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[10:40]

Forseti (Guðjón Guðmundsson):

Sá forseti sem hér stýrir fundi er ekki vanur að ljúga að þingmönnum. Fyrir framan mig er útprentun úr stimpilklukkunni við anddyrið þar sem menn eiga að stimpla sig inn þegar þeir koma í hús. Þegar ég gaf þessar upplýsingar áðan voru í húsinu 10 þingmenn stjórnarandstöðunnar. (SvH: En 13 í salnum.) Hafi þeir ekki stimplað sig inn, þá er það þeirra mál en ekki forseta. (Gripið fram í.) Ég ætla að biðja hv. þm., sem er þingflokksformaður, að brýna það fyrir sínum þingmönnum að stimpla sig inn þegar þeir mæta í húsið og hætta áburði á forseta þingsins.

Forseti vill endurtaka það sem hann sagði áðan, ef það hefur farið fram hjá hv. þm., að það hefur mánuðum saman verið venja að greiða atkvæði eftir hádegi á þeim dögum sem þingfundir hefjast að morgni. Það er gert til þess að hægt sé að greiða atkvæði um fleiri mál, t.d. málin sem eru rædd fram að hádegi. Þetta vita hv. þm. að hefur verið venja mánuðum saman og hefur ekki verið gert með öðrum hætti. Það er sjálfsagt að breyta því ef vilji er fyrir því í þinginu. Það verður rætt í forsn. á mánudaginn.

Hv. 13. þm. Reykv. óskar að bera af sér sakir.