Viðvera stjórnarþingmanna

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 10:43:42 (6956)

2001-04-27 10:43:42# 126. lþ. 114.91 fundur 492#B viðvera stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[10:43]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við þá umræðu sem hér hefur farið fram að bæta. Ég ætla ekki beinlínis að blanda mér í hana.

Ég tel hins vegar óhjákvæmilegt en vekja máls á öðru sem varðar störf þingsins og dagskrá dagsins. Ég óska eftir aðgerðum hjá hæstv. forseta varðandi 12. dagskrármálið, almenn hegningarlög, sem varðar refsiþyngingu í fíkniefnamálum. Fyrir tveimur dögum fór fram umræða um störf þingsins og var lögð fram formleg beiðni þess efnis að allshn. tæki áðurnefnt mál til frekari athugunar milli 2. og 3. umr. Við þeirri eðlilegu ósk fengust frekar stríð viðbrögð en á hinn bóginn lýsti formaður allshn. því yfir að hún hygðist koma upplýsingum til nefndarmanna á nefndarfundi um stöðu mála í tiltekinni nefnd sem hefur með athugun þessara mála að gera.

Nú hefur hv. formaður allshn. ekki gert það. Samt sem áður er þetta mál á dagskrá. Ég fer þess á leit við hæstv. forseta að orð standi og það sem formaður allshn. lýsti yfir fyrir tveimur dögum gangi eftir áður en málið kemur til 3. umr. Verði ekki unnt að verða við því vil ég taka það skýrt og afdráttarlaust fram að hæstv. dómsmrh. var ekki viðstödd efnisumræðu málsins, 2. umr. máls og það hefur verið krafa mín að hún verði hér við umræðuna.

Ég vil líka láta þess getið að hér verður engin venjubundin 3. umr. um þetta mál. Fjölmörg efnisatriði hafa komið upp á síðan 2. umr. fór fram og hér verður margra klukkutíma umræða um málið. Ég vil láta það koma fram, ekki síst ef ekki verður staðið við þau fyrirheit sem gefin voru.

Ég vildi láta þetta koma fram og vænti þess að forseti muni beita áhrifum sínum til að taka þetta mál út af dagskrá í dag.

(Forseti (GuðjG): Forseti mun ræða þetta mál við formann allshn.)