Viðvera stjórnarþingmanna

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 10:47:50 (6958)

2001-04-27 10:47:50# 126. lþ. 114.91 fundur 492#B viðvera stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[10:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það skal helst aldrei bregðast ef hér hefjast umræður um eitthvað sem varðar störf þingsins eða gagnrýnt er eitthvað sem að einhverju leyti beinist að meiri hlutanum að hv. 3. þm. Reykn., Sigríður Anna Þórðardóttir, komi þá í ræðustólinn og leggi gott til. Hún hvetur í öðru orðinu til samstöðu og menn eigi að sameinast um að auka vegsemd og virðingu þingsins en í hinu orðinu lætur hún að því liggja að þegar stjórnarandstæðingar gera að mínu mati fullkomlega eðlilegar athugasemdir við röskun á fyrir fram boðaðri dagskrá þingsins vegna mætingarleysis stjórnarliða, þá lætur hv. þm. að því liggja að þetta sé auðvitað til marks um málefnafátækt stjórnarandstöðunnar.

Hv. þm. er hins vegar svo vandur að virðingu sinni að hv. þm. getur ekki hugsað sér að gera athugasemdir á svona lágu plani, augljóslega svo miklu vandaðra eintak af þingmanni að vera en við hin, herra forseti. Mér finnst þetta ekki bæta andrúmsloftið sem hér er fyrir. Ég held að það væri miklu skynsamlegra að hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, formaður þingflokks Sjálfstfl., tæki til í eigin ranni og sæi til þess að ástundun þingmanna Sjálfstfl. og mæting, líka þeirra sem eru meira og minna í fullum störfum utan þings, væri þannig að hv. þm. gæti komið í ræðustólinn og hefði efni á því að vera með gagnrýni í okkar garð eins og hér var uppi höfð.

Ég get út af fyrir sig tekið undir það, herra forseti, að æskilegra væri að menn gætu utan þingsalanna tekið á þessum málum með því að reyna í þingflokkum sínum að tryggja það að svipurinn á þinghaldinu væri ekki sá sem raun ber vitni hérna, því miður dag eftir dag. En það getur að því komið að mönnum ofbjóði svo að menn sjái sig knúna til að fara í ræðustólinn. Þá er betra að gera það að mínu mati en horfa upp á þetta halda áfram að versna eins og það hefur því miður óumdeilanlega verið að gera undanfarin ár.