Viðvera stjórnarþingmanna

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 10:50:03 (6959)

2001-04-27 10:50:03# 126. lþ. 114.91 fundur 492#B viðvera stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[10:50]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni vil ég upplýsa að í umræðum fyrr í vikunni gaf ég skýrt til kynna að við mundum ekki taka þetta mál, hvort það eigi að auka refsiramma í fíkniefnabrotum úr 10 árum í 12, aftur inn í nefndina þar sem við teljum að það hafi verið farið vandlega yfir það. Engu að síður sagði ég að það væri sjálfsagt mál að upplýsa hver gangur mála væri í þeirri nefnd sem er á vegum dómsmrh. og er að kanna varnaðaráhrif og fleira tengt fíkniefnabrotum, líkamsárásarbrotum og kynferðisbrotum.

Það var aukafundur í allshn. á miðvikudaginn frá kl. sex til hálfellefu. Strax í upphafi fundar bað ég fulltrúa dómsmrn. að gera sérstaklega grein fyrir störfum nefndarinnar og það kom skýrlega fram í máli hans að nefndin er enn að störfum undir forustu Sigurðar Tómasar Magnússonar og kemur vonandi til með að skila af sér næsta haust. Þá getur þingið tekið þá skýrslu til umfjöllunar. Það verður ekki fyrr en næsta haust og það var upplýst hjá nefndinni á miðvikudaginn hvernig þau störf hafa gengið fyrir sig.