Ávana- og fíkniefni

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 10:56:49 (6965)

2001-04-27 10:56:49# 126. lþ. 114.16 fundur 630. mál: #A ávana- og fíkniefni# (óheimil efni) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[10:56]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, með síðari breytingum. Frv. þetta var samið í heilbr.- og trmrn. að tillögu starfshóps sem dómsmrh. skipaði vegna óvissu sem reis í kjölfar dóma þar sem sýknað hafði verið af ákærum þar sem refsiheimildir á þessu sviði þóttu ófullnægjandi. Efni eru flokkuð sem ávana- og fíkniefni samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland hefur gerst aðili að. Þeir samningar eru alþjóðasamningar um ávana- og fíkniefni frá 1961, með síðari breytingum, alþjóðasamningar um ávana- og fíkniefni frá 1971, ásamt viðaukum og alþjóðasamningur gegn ólöglegri verslun með ávana- og skynvilluefni frá 1988. Nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna uppfærir lista ávana- og fíkniefna sem fylgja samningnum. Þegar ný efni koma upp sem ástæða þykir til að banna sem ávana- og fíkniefni hefur ekki verið unnt að gera það hér á landi nema breyting hafi verið gerð á alþjóðasamningum og þau tekin þar upp. Breytingar á samningnum geta hins vegar tekið langan tíma. Á meðan er ekki unnt að refsa fyrir sölu á meðferð efnanna. Þannig er hætta á því að löggjafinn sé ávallt skrefi á eftir. Sífellt koma upp ný ávana- og fíkniefni og ýmis afbrigði þeirra sem ekki eru tekin upp á lista með alþjóðasamningum en talið er brýnt að banna sem ávana- og fíkniefni. Því er lagt til að heimild ráðherra verði rýmkuð svo með reglugerð um ávana- og fíkniefni verði unnt að banna hvers konar afleiður, afbrigði þekktra ávana- og fíkniefna.

Þannig væri um að ræða regnhlífarákvæði sem tæki til allra nýrra afbrigða eða afleiðna ávana- og fíkniefna. Mjög mikilvægt er að geta gripið til fljótvirkra aðgerða og sporna við þeirri vá sem fíkniefni eru svo unnt sé að dómfella þá sem stunda fíkniefnasmygl og sölu.

Virðulegi forseti. Hér á undan hef ég reynt að skýra aðdraganda þess að ég legg fram þetta frv. til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni. Aðalatriðið er að hafa ákvæði laganna þannig að á hverjum tíma sé unnt að bregðast við nýjum fíkniefnum með viðeigandi hætti og geta dregið þá til saka sem hagnast á fíkniefnasölu. Ég tel því afar mikilvægt að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi og leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.