Ávana- og fíkniefni

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 11:00:50 (6966)

2001-04-27 11:00:50# 126. lþ. 114.16 fundur 630. mál: #A ávana- og fíkniefni# (óheimil efni) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[11:00]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir að þetta frv. til laga um breytingu á lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, sé lagt hér fram og geri okkur og löggjafanum þar með kleift að fella dóma og ákæra í þeim málum sem varða misferli fíkniefna sem ekki eru á listum yfir fíkniefni sem dómurum er stætt að dæma eftir í dag.

Ég vil jafnframt óska nýjum heilbr.- og trmrh. til hamingju með starfið. Þetta er fyrsta frv. sem hann leggur fram og mér finnst sérstaklega ánægjulegt að það skuli vera um þetta efni. Ég óska honum velfarnaðar í starfi.

Hér er upptalning á efnum sem eru ávana- og fíkniefni og lagt er til að bætist við alþjóðlega lista. Mig langar til þess að nota þetta tækifæri og benda á að inn á þennan lista vantar efni sem er jafnávanabindandi og heróín og kókaín og er flokkað samkvæmt alþjóðastöðlum í læknisfræðinni sem ávana- og fíkniefni en fæst ekki inn á þessa alþjóðlegu skilgreiningu á fíkniefnum enn þá. Þetta er efnið nikótín sem er mjög sterkt ávana- og fíkniefni. En því miður verða að líða einhver ár til viðbótar --- ég ætla að vona að þau verði ekki mörg --- þar til farið verður eftir nákvæmri skilgreiningu á því efni og það sett á réttan stað, þ.e. á þennan lista. En það verður víst ekki fyrr en menn treysta sér til þess að banna það efni og fara með það eins og ætti að gera.

Herra forseti. Ég þakka fyrir að þetta frv. skuli komið fram og trúi því að það tefjist ekki inni í heilbr.- og trn.