Ávana- og fíkniefni

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 11:03:32 (6967)

2001-04-27 11:03:32# 126. lþ. 114.16 fundur 630. mál: #A ávana- og fíkniefni# (óheimil efni) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[11:03]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. heilbr.- og trmrh. til hamingju með sitt fyrsta mál í þinginu og tek undir með þeim hv. þm. sem talaði hér á undan mér að það er ánægjulegt að það skuli vera svona gott mál sem kemur hér inn og mun koma til heilbr.- og trn. Hæstv. ráðherra vonaðist eftir því að frv. yrði afgreitt á þessu þingi og ég get ekki séð að nokkuð sé því til fyrirstöðu að heilbr.- og trn. taki þetta mál til umfjöllunar og afgreiðslu fljótt og vel því að hér er verið að rýmka heimild ráðherra til að takmarka innflutning, vörslu og meðferð efna sem teljast til ávana- og fíkniefna. Málið er því mjög jákvætt.

Varðandi umræðuna um nikótínið og að það skuli ekki vera þarna inni þá má nefna að hv. heilbr.- og trn. er langt komin með að afgreiða þingmál til þess ætlað að hamla gegn notkun þess vímuefnis. Það er þingmál um tóbaksvarnir sem ég býst við að verði afgreitt nú í vor þannig að ég held að þessi þingmál sem varða ávana- og fíkniefni séu á góðri leið í þinginu og verði afgreidd fyrir vorið.

Til hamingju segi ég, herra forseti, við hæstv. ráðherra með sitt fyrsta mál og óska honum velfarnaðar í starfi.