Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 11:07:33 (6969)

2001-04-27 11:07:33# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[11:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það hefði verið hyggilegt hjá stjórnarliðinu að standa öðruvísi að þinglegri umfjöllun um þetta mál, a.m.k. á seinni stigum þess. Svo bar við í umræðum um störf þingsins fyrir um tveimur dögum að umfjöllun um þetta mál var þar tekin fyrir og sett var fram sú ósk að það gengi til nefndar milli 2. og 3. umr. Sú ósk var ágætlega rökstudd því fyrir lá að nefndinni höfðu ekki borist upplýsingar um nefndarstarf sem í gangi er í þessu sambandi og málið var að ýmsu leyti vanbúið til að fá endanlega afgreiðslu á þinginu. Þá gerðist sá fáheyrði atburður að formaður þingnefndarinnar, allshn., neitaði því með öllu að nefndin tæki málið aftur til skoðunar milli 2. og 3. umr. Þetta eru, herra forseti, í fyrsta lagi að mínu mati ákaflega óskynsamleg vinnubrögð út frá hagsmunum meiri hlutans á þinginu því að ef hægt er að hafa hérna sæmilegt andrúmsloft um hlutina frekar en gera þá með illu þá er ég þeirrar skoðunar að heppilegra sé að velja þá leið, herra forseti, að reyna að gera hlutina í góðu samkomulagi heldur en gera þá með illu. En það er svo furðulegt að svo virðist komið fyrir meiri hlutanum að hroki þeirra sem lengi hafa farið með völdin birtist m.a. í því að menn velja gjarnan leið átakanna, velja það að gera hlutina með illu jafnvel þó að til boða standi að hafa samkomulag um þá. Hvað hefur það upp á sig að hafna því að þingnefnd hittist eins og einu sinni og skoði mál stuttlega milli 2. og 3. umr.? Til hvers er það? Það er í fyrsta lagi til þess að koma óorði á störf þingsins, sýna því starfi lítilsvirðingu sem hér er unnið, að það hafi í sjálfu sér ekkert upp á sig að leggja vinnu í mál í meðförum þingsins ef hinn hái meiri hluti er búinn að ákveða að svona skuli hlutirnir vera. Það er í öðru lagi til þess að spilla öllu samstarfsandrúmslofti. Það liggur alveg fyrir. Og það er í þriðja lagi auðvitað ávísun á óvönduð vinnubrögð. Það er ekkert annað. Það er ávísun á óvönduð vinnubrögð að því skuli vera hafnað að nota þann möguleika að taka mál til frekari skoðunar í þingnefnd milli 2. og 3. umr.

Það er kannski rétt að rifja það aftur upp fyrir hv. þm., af því að ýmsir eru hér nú sem ekki voru á sínum tíma þátttakendur í þeirri umræðu þegar þinginu var breytt úr tveimur deildum í eina málstofu, að þá fóru fram mjög miklar umræður um það hvernig ætti að tryggja að sú breyting yrði ekki ávísun á óvandaðri vinnubrögð, að ekki fjölgi þeim tilvikum þar sem mönnum yfirsjáist vegna þess að málin fái ekki lengur skoðun í tveimur deildum og af tveimur þingnefndum og fari ekki í gegnum sex umræður heldur bara þrjár. Þá var þetta eitt af því sem var rætt, að þetta þyrfti auðvitað að hafa í huga þegar nefndarstörfin í einni málstofu væru skipulögð. Ég fullyrði að svardagar voru uppi um að það leiddi af sjálfu, ef óskir bærust um að þingnefnd tæki mál aftur til sín milli 2. og 3. umr., að þá yrði að sjálfsögðu orðið við því. Það væri að sjálfsögðu alveg eðlilegur hluti af því að vinna málin vandlega í einni málstofu og í þremur umræðum í staðinn fyrir tveimur deildum og í sex umræðum.

Herra forseti. Mér finnst þetta mjög dapurlegt. Ég verð að segja það alveg eins og er. Mér finnst þetta mjög dapurlegt. Og ég held að menn séu komnir hér í miklar ógöngur og þeir geri engum gagn með þrjósku og stífni af þessu tagi. Vonandi er þetta vegna þess að menn hafi ekki hugsað hlutina í botn. Þegar menn fara betur yfir þetta og velta þessu fyrir sér þá hljóta þeir að sjá að þetta er óskynsamlegt. Þetta þjónar engum góðum tilgangi, ekki neinum. Það á almennt að eiga við um þingstörfin að menn reyni að hafa eins gott samkomulag um þau og hægt er en velji ekki að troða hlutunum áfram í illsku þegar annað stendur til boða.

Ég held að allshn. hafi ekki verið að fara fram á nema eins og einn fund þar sem þetta tiltekna atriði fengi að koma til skoðunar, þ.e. hvar nefndarstarfið væri á vegi statt og hvert væri samhengi þess við þennan fræga refsiramma sem hér á að þyngja nokkuð og herða í sambandi við fíkniefnin.

Síðan leyfi ég mér að spyrja, herra forseti: Hvar er hæstv. dómsmrh.? Því var sérstaklega lofað að hæstv. dómsmrh. yrði hér við umræðuna. Samt hefur forseti umræðuna ...

(Forseti (GuðjG): Samkvæmt ...)

Má ég aðeins halda áfram, herra forseti?

(Forseti (GuðjG): Hv. þm. er að leggja spurningu fyrir hæstv. forseta. Hæstv. ráðherra er í húsinu.)

Er til of mikils mælst að hæstv. ráðherra hafist við í þingsalnum? Mig undrar líka, herra forseti, að forseti skuli eftir þær umræður sem á undan voru gengnar um þetta mál taka það hér fyrirvaralítið á dagskrá án þess að hæstv. ráðherra sé kominn í húsið. Ég gat ekki betur heyrt en að forseti ætlaði að slíta umræðunni vitandi þó mjög vel að þingmenn ætluðu að taka þátt í henni. En þeir voru ekki hérna í salnum á því augnabliki sem forseti setti málið fyrirvaralaust á dagskrá. Þetta er ekki til fyrirmyndar, herra forseti. Ég ætla að segja það alveg hreinskilnislega við virðulegan forseta, sem að öðru jöfnu er þó réttlátur í sinni fundarstjórn og vill vanda sig og það veit ég vel.

Varðandi þetta mál að öðru leyti, herra forseti, þá er ég ekki í hópi þeirra þingmanna sem mest hafa um það fjallað. Ég hef þó aðeins verið að skoða það síðustu tvo sólarhringana eða svo. Ég vil því láta álit mitt í ljós. Vera kann að ákveðin lagatæknileg eða réttarfarsleg rök séu fyrir því að refsiramminn varðandi fíkniefnaafbrot sé knappur. Það er þá fyrst og fremst vegna innbyrðis samanburðar, ekki vegna þess í sjálfu sér að hámarksrefsingin sé endilega of lítil heldur vegna þess að menn hafa verið að þyngja dóma vegna léttvægari brota og þar af leiðandi sé skalanum raskað innbyrðis, ef ég hef skilið þetta rétt. Það kunna út af fyrir sig að vera einhver slík rök fyrir því að þessu sé breytt.

Á hinn bóginn, herra forseti, er mjög mikilvægt að þessir hlutir séu skoðaðir mjög vandlega og ekki hrapað að því að trúa á að einhver tiltölulega lítil breyting sem varðar það að færa refsirammann upp varðandi brot á þessu sviði breyti í sjálfu sér nokkru um það hvaða tökum menn ná á þessum vandamálum. Ég get ekki annað sannfæringar minnar vegna en sagt að ég hef miklar efasemdir um þá tilfinningu sem mér finnst dálítið vera að skjóta upp kollinum, að vandann varðandi ofbeldisglæpi, fíkniefnaafbrot og annað því um líkt eigi bara að leysa með því að þyngja refsingarnar vegna þess að reynslan af því þar sem það hefur verið gert er ekki góð.

Það merkilega kemur í ljós að oft og tíðum virðist vera öfugt samhengi milli refsiþyngdar í einstökum löndum og þeirra vandamála sem þar er við að glíma. Oftrú á að það eitt að lengja fangelsisvist og þyngja refsingar vegna afbrota þegar í hlut á djúprætt, félagsleg vandamál af þessu tagi er því mjög hættuleg.

[11:15]

Ekki gengur Bandaríkjamönnum vel að glíma við ofbeldisglæpi og fíkniefnabrot. Þó eru þeir ein refsiglaðasta þjóð í heiminum, með sínar frægu dauðarefsingar og aftökur, jafnvel á ósakhæfu fólki og fólki sem fremur afbrotin áður en það er sjálfráða eða lögráða o.s.frv.

Íslendingar, sem hafa verið með einna vægastar refsingar, t.d. gagnvart ofbeldisglæpum og morðum, búa jafnframt að því að hér er glæpatíðnin einna lægst í heiminum. Þannig var það a.m.k. lengi. Ef maður lítur bara á það, svo einhver dæmi séu nefnd, þá eru það ekki rök fyrir því að lausnin á vandamálum af þessu tagi sé að einhverju leyti, ég tala nú ekki um alfarið, fólgin í að herða refsingar.

Ég vil gera mjög skýran greinarmun annars vegar á því sem kann að lúta að innbyrðis samræmi í þessum efnum, að það fari eftir viðurkenndum og eðlilegum skala, eftir því hve alvarleg brotin eru, hversu langt sé gengið í refsingum, og hins vegar á refsiþyngd sem slíkri, viðmiðum manna í þeim efnum til að ákveða lengd fangelsisvistar o.s.frv. og hverju hún á að skila.

Ég held að rætur meinsins liggi í grundvallaratriðum í öðru en virðingarleysi manna fyrir því að eitthvað sé bannað og þeir geti hlotið refsingu ef gegn því er brotið. Þegar um er að ræða vandamál sem liggja djúpt í rótum samfélagsins og tengjast ekki síst félagslegum þáttum þá er afar hættulegt að gefa sér að menn nái miklum árangri með því einu að líta á lagarammann og refsirammann.

Auðvitað veit ég að í gangi er ýmislegt annað sem menn eru að reyna að gera. Ég vil engu að síður, herra forseti, koma á framfæri varnaðarorðum mínum og fyrirvörum án þess að ég segi þar með að fyrir þeirri breytingu sem hér er verið að boða, sem er í sjálfu sér ekki stórvægileg, geti ekki verið rök. En hún hefði þurft og ætti að vera í betra samræmi við það sem menn hugsa sér að gera almennt, þ.e. sem lýtur að endurskoðun á ákvæðum hegningarlaga og almennum refsiákvæðum í réttarfari okkar. Því er ábótavant eins og hér hefur komið fram og því deili ég þeirri afstöðu með stjórnarandstöðunni að þetta mál sé mjög vanbúið til afgreiðslu.

Herra forseti. Þrátt fyrir allt er málið hér komið til 3. umr. Þó eru allmargir dagar eftir af þinghaldinu og því engin ástæða til að óttast um afdrif þessa máls þó umræðan sé núna keyrð fram með þeim hætti sem mér virðist því miður meiri hlutinn, virðulegur forseti, hæstv. ráðherra og formaður viðkomandi þingnefndar leggja áherslu á. Hver í ósköpunum ætlar að færa fram sannfærandi rök fyrir því að það breyti einhverju þó þetta mál yrði gert að lögum fyrir helgina fremur en á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku eða svo? Það er allt og sumt sem til þyrfti til að hægt væri að vinna málið eðlilega, að halda einn eða tvo fundi í allshn. og skoða málið.

Í raun, herra forseti, er það svo gjörsamlega ónýtur málflutningur sem meiri hlutinn hefur haft uppi og notað til að reyna að rökstyðja það að keyra þurfi þetta mál áfram að ég hygg að hann dæmi sig sjálfur. Í sjálfu sér þarf ekki frekari orð um hann.

Herra forseti. Ég læt þessar hugleiðingar nægja af minni hálfu, a.m.k. í bili, en áskil mér rétt til þess að taka frekar þátt í umræðunni síðar.