Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 11:30:57 (6979)

2001-04-27 11:30:57# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[11:30]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við séum alveg sammála um það, hv. þingmenn, að þetta eru mjög alvarleg mál og þjóðfélagslegt mein sem við verðum að taka á.

En þessi breyting hefur gerst á tiltölulega skömmum tíma. Ýmsar breytingar í heiminum, t.d. með falli Sovétríkjanna, gerðu það að verkum að landamæraeftirlit féll nánast niður á ýmsum stöðum þannig að fíkniefnin eiga miklu greiðari leið til Evrópu nú en áður. Og þetta er þróun sem er að gerast alls staðar í Evrópu. Og þess vegna erum við að sjá hér miklu stærri og alvarlegri brot á þessum sviðum.

Mér finnst rétt að minnast líka á að nýlega var gefin út skýrsla til íslenskra stjórnvalda um rannsókn á ítrekunartíðni afbrota. Í þeirri skýrslu kemur einmitt fram að það er svo sérstakt að í fíkniefnabrotunum þar sem menn hafa verið dæmdir í fangelsi þá er ekki sérstaklega há ítrekunartíðni. Þessi afbrot skera sig því úr ef við lítum á önnur afbrot sem fjallað er um í þessari skýrslu. Þetta er mjög athyglisvert og rennir auðvitað frekari stoðum undir það frv. sem við erum að ræða um hér. Ég taldi rétt að undirstrika þetta.

Hins vegar er alveg rétt að rætt hefur verið um önnur brot, eins og kynferðisbrot. Þar er lagaramminn mjög stór, t.d. í nauðgunarbrotum. Þar er lágmarksrefsing eitt ár og upp í sextán ár. Lágmarksrefsing felur í raun og veru í sér mjög skýr tilmæli til dómstóla um að dæma harða dóma. Það er því í raun miklu meira inngrip í refsiréttinn en stækka rammann upp á við. Rétt er að menn hafi það í huga.

Þau mál eru því miður erfið við að eiga eins og við vitum, út af sönnunarbyrði og öðru því um líku. En það er auðvitað rétt að skoða þessa hluti alla í samhengi.