Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 11:40:56 (6984)

2001-04-27 11:40:56# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[11:40]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Eftir því sem ég veit best um þetta nefndarstarf þá er það sem sagt í gangi. Einhverjir starfsmenn á vegum nefndarinnar eru þar í vinnu. Að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir því að ekkert væri þessu til fyrirstöðu enda liggur hvort sem er í hlutarins eðli að þingnefnd hefur allan rétt til þess að kalla til sín upplýsingar um það mál, þess vegna ræða við starfsmennina og nefndarmennina t.d. um það hvernig starfinu verði hagað, hvað þingnefndin telji mikilvægt að leggja áherslu á o.s.frv.

Ég segi bara fyrir mitt leyti að mér finnst ekkert standa eftir af andstöðu forustumanna allshn. eða hæstv. ráðherra, þ.e. að hafna þessari ósk, annað en þrjóskan ein, það er ekkert annað en þrjóskan eftir, að beygja sig ekki, að viðurkenna ekki að það hafi verið óskynsamlegt að hafna þessari ósk. Það er algjörlega kristaltært í mínum huga.

Varðandi efni frv., bara til að ekki sé misskilningur uppi um það, þá hef ég ekki lýst yfir stuðningi við þetta frv. Ég áskil mér allan rétt til þess að skoða það betur í samhengi við ýmsa hluti. Fyrirvarinn sem ég lýsti hér lýtur almennt að því að ég vara við oftrú á að þynging refsinga gagnvart djúprættum, félagslegum samfélagsmeinum af þessu tagi sé meiri háttar lausn eða allsherjarlausn í þessum efnum.

Mér er ljóst að frv. gengur ekki út á það í neinum veigamiklum atriðum og að það mun ekki segja dómstólunum fyrir verkum um þyngingu dóma. En það er meira svona hugarfarið sem að baki liggur sem ég vara við vegna þess að það er víða á kreiki í þjóðfélaginu, því miður leyfi ég mér að segja, að menn einfalda málin um of og telja að hægt sé að kveða niður vandamál af þessu tagi með því einu að þyngja refsingarnar.