Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 11:43:03 (6985)

2001-04-27 11:43:03# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[11:43]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það er að verða lenska hér í þessum sal af hálfu fulltrúa stjórnarmeirihlutans þegar þeir komast hér í rökþrot, stundum í flóknum málum, að þá segja þeir einfaldlega: ,,Ja, ég er bara þessarar skoðunar og hef rétt á því og þið eruð bara annarrar skoðunar og þið hafið líka rétt á því og meiri hlutinn ræður.`` Punktur og basta. Þannig reyna stjórnarliðar gjarnan að skauta fram hjá alvarlegum vanköntum á vinnslu mála, alvarlegum vanköntum í rökstuðningi við mál og stundum alvarlegum vanköntum í lagafræðilegum skilningi, þ.e. lögin standast einfaldlega ekki og standast engan veginn rök þegar nánar er skoðað.

Af þessum toga var andsvar hv. þm. Ástu Möller sem því miður gat ekki verið með okkur hér við 2. umr. máls, ítarlega umræðu máls, ekki frekar en aðrir fulltrúar Sjálfstfl. í allshn. né heldur fulltrúi Framsfl. Hvort þeir eru einn eða tveir man ég nú ekki. Þeir eru tveir og þeir hafa ekki sést hér enn.

Herra forseti. Ég hirði ekkert um umvöndunarorð hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur, formanns þingflokksins, um að það kunni að vera hér á ská og skjön að kalla eftir almennum þingmönnum til umræðunnar. Ég bara kalla eftir afstöðu Framsfl. til málsins og rökstuðningi Framsfl. til málsins. Það er nóg komið af því í þessum sal að sjálfstæðismenn sjái um tiltekin mál í þessum helmingaskiptum og framsóknarmenn um tiltekin mál og hinn flokkurinn sjáist aldrei og spili frítt. Ég bið því varaformann nefndarinnar og bið hæstv. forseta að athuga það með starfsmönnum þingsins hvort varaformaður nefndarinnar eða annar hvor fulltrúi Framsfl. geti ekki verið með okkur við þessa umræðu þannig að maður heyri viðhorf hans til málsins.

[11:45]

Það er nefnilega þannig í fjölmörgum málum í stjórnarsamstarfinu að það kraumar undir. Þó að stjórnarflokkarnir séu í orði kveðnu sammála um tiltekin mál þegar til kastanna kemur, þegar menn ýta á hnappana, þá er áherslumunur í fjölmörgum tilvikum. Nýjasta nýtt í þeim efnum er auðvitað Síminn sem við eigum eftir að ræða ítarlega eftir helgina þar sem Framsókn var enn og aftur beygð í duftið. Ég vænti þess að það heyrist a.m.k. einhver sjónarmið hjá Framsfl. og geng út frá því að þögn forseta sé með þeim hætti að hann gangi til þessara verka.

Ég sagði að hv. þm. Ásta Möller, sem verið hefur í tvö ár á hinu háa Alþingi, teldi verklag og vinnubrögð í þessu mál í hinu besta falli. Ég verð að segja, herra forseti, ég hef alvarlegar áhyggjur af því að nýir þingmenn eftir tveggja ára setu meti það svo að í jafngrafalvarlegu máli og hér um ræðir, að þingnefndin hafi unnið skelegglega og vandað sig í þessu verki. Til nefndarinnar voru kallaðir tveir aðilar, annars vegar skrifstofustjóri dómsmrn., starfsmaður hæstv. ráðherra sem væntanlega samdi frv., og hins vegar formaður Lögmannafélagsins sem mælti mjög eindregið gegn frv.

Herra forseti. Hafi það farið fram hjá nokkrum, og ég mun gera ítarlega grein fyrir því á eftir, hvað hefur síðan gerst í kjölfar 2. umr. máls. Þegar þjóðfélagsumræðan hefur farið af stað þá hefur til að mynda verið leitað svara hjá sérfræðingi í þessum málum sem heitir Erlendur Baldursson og vinnur hjá Fangelsismálastofnun, var lengi hjá skilorðseftirliti ríkisins og þekkir þessi mál eins og fingurna á sér. Hvað segir hann? Honum finnst þetta óskynsamlegt og geldur varhug við þessari stefnu. Hefði ekki verið vit í því að kalla menn á borð við hann fyrir nefndina? Hefði ekki verið vit í því að kalla fyrir nefndina afbrotafræðing á borð við Hildigunni Ólafsdóttur og fara yfir þau álitamál sem eru uppi? Hefði ekki verið vit í því líka að kalla fyrir nefndina Sigurð Tómas Magnússon og skoða á hvaða vegferð og ferðalagi þessi nefnd væri? Það eru engin rök gagnvart mér því þetta mál er ekki í mínum huga þannig vaxið að það eigi að skiptast milli stjórnmálaflokka. Það eru engin rök gagnvart mér þó að hv. fulltrúi Samfylkingarinnar, annaðhvort þeirra eða bæði, hafi ekki óskað eftir þessari athugun. Málið er á forræði og ábyrgð meiri hluta stjórnarflokkanna. Ef menn ætla að vanda sig við vinnubrögðin hefðu menn auðvitað átt að vita af þessari till. til þál. --- auðvitað veit hæstv. ráðherra það því að hún var formaður nefndarinnar á sínum tíma --- og kalla til við eðlilega og venjulega meðferð málsins Sigurð Tómas Magnússon.

En, herra forseti, vita menn hver þessi Sigurður Tómas Magnússon er að öðru leyti en því að vera starfsmaður þessarar nefndar? Hann er formaður dómstólaráðs og dómstólaráð er einn af umsagnaraðilunum um þetta frv. Það er einn af umsagnaraðilum um þetta frv. og hefur miklar efasemdir um ágæti þess.

Herra forseti. Ég hef nefnt örfá dæmi um það fólk sem nefndin hefði átt að kalla fyrir og ræða málið við. Það er ekki fyrr en þá sem ég hygg að nýir og gamlir þingmenn geti með góðri samvisku sagt: Við vönduðum okkur við meðferð málsins, öll gögn eru komin í hús. Þá er það sem þingmenn geta fyrst og síðast látið samviskuna og hyggjuvitið ráða. En fyrr er þessi stjórnarskrárbundni réttur þingmanna, um að samviskan ráði, ekki fullgildur en að menn séu búnir að safna öllu í hús sem máli skiptir við meðferð málsins.

Þess vegna veldur það mér verulegum áhyggjum, herra forseti, og ég bið menn að gleyma sér ekki í því og vera hér allt of staffírugir í stjórnarmeirihluta vegna þess að þeir hafi meiri hluta á bak við sig og geti sagt og gert það sem þeim dettur í hug. Ég bið fólk að vanda sig, hv. þingmenn, þegar þeir ætla að halda því fram og trúa því sjálfir að vel hafi verið að verki staðið.

Ég hygg að það sé þannig, herra forseti, að hv. þm. á borð við Þorgerði K. Gunnarsdóttur, hv. þm. Ástu Möller og raunar fleiri stjórnarliða, viti og skynji í hjarta sínu, að það er flumbrugangur í þessu máli. Þeir viti það líka í hjarta sínu að það voru ekki skynsamleg viðbrögð við eðlilegri ósk eftir 2. umr. málsins, sem var mjög málefnaleg, að taka ekki málið inn í nefnd milli umræðna og reyna að fara yfir það og þétta þær röksemdir, ellegar veikja þær eftir efnum og ástæðum, sem að baki lágu. Meðal annars með því að kalla það fólk til skrafs og ráðagerða sem ég nefndi til sögunnar.

Ég hef á tilfinningunni að hæstv. ráðherra ráði allt of miklu hér um. Kapp hennar, þekkt hér fyrr og síðar, ráði of miklu um það hvernig vinnubrögðum er háttað í málinu. Því er nú verr og miður. Stundum er gott að vinna vel og hratt og ákveðið en í málum af þessum toga þar sem allir vita að lífið liggur ekki á, það er ekkert sem gerist í dag eða á morgun í þessum málaflokki sem gerir það að verkum að menn verði að ljúka þessu núna fyrir hádegi í dag.

Það var upplýst áðan, herra forseti, að sú nefnd, sem ég ætla að gera að umtalsefni á eftir, mundi ljúka störfum í haust. Ég spyr: Hvað er það í raun sem mælir á móti því að menn taki upp þráðinn í haust og einsetji sér það þá og nái um það samkomulagi að ljúka málinu og meðferð þess á einn eða annan veg fyrir áramót? Hvaða hætta er á ferð í þeim efnum? Ég beini þeirri spurningu sérstaklega til hæstv. dómsmrh.

Ég veit að hæstv. ráðherra er mjög kappsöm og finnst það kannski eitthvað niðurlægjandi að þurfa að bakka út úr málinu á síðustu stundu og verða við óskum stjórnarandstöðunnar. Allt er þetta spurning um það hver ræður ferð en ef menn horfa á málið eins og það er, sjá þá ekki allir að langskynsamlegast væri að standa svona að verki? Ég held, herra forseti, og vil trúa því að þegar fólk skoðar þessi mál með sanngirni sé það mér sammála um að þetta væru hin eðlilegu vinnubrögð. Það er ekkert veigalítið verkefni sem þessi nefnd hefur með höndum.

Ég vil rifja það upp, herra forseti, af hverju það varð niðurstaðan á þinginu 1997 og 1998 að fara í þetta nefndastarf. Upphaf þess máls var það m.a. að hv. þm. á borð við Jóhönnu Sigurðardóttur og raunar miklu fleiri gerðu harða atlögu að því og voru með hugmyndir í þá veru að þyngja mjög verulega refsingar við tilteknum brotum. Ef ég man rétt voru það ekki síst glæpir gegn börnum. Eftir málefnalega umræðu hér, þá var samkomulag um það í nefndinni, undir forustu hv. þáv. þm. og núv. hæstv. ráðherra, Sólveigar Pétursdóttur, að það væru ekki góð vinnubrögð að menn tækju út tiltekna þætti og þyngdu refsirammann eða þrengdu eftir efnum og ástæðum algjörlega án tengsla við aðra þætti hegningarlaga. Það var að frumkvæði núv. hæstv. dómsmrh., þáv. formanns allshn., að menn náðu góðu samkomulagi um að kippa ekki út einstökum atriðum á borð við þetta án þess að hafa heildarmyndina skýra og klára. Ég bið hæstv. dómsmrh. að leiðrétta mig ef ég fer rangt með þessa lýsingu. Hún vann þar gott og mikið starf að því að leiða stundum ólík sjónarmið saman og að ná þessari lendingu um að undanfari stórra og mikilla breytinga á refsilöggjöfinni væri sá að menn vissu nákvæmlega hvað þeir væru að gera, það lægi fyrir fagleg athugun sem tæki á innri samræmingu, tölfræðin væri skýrð og gerð miklu betri en þá var og er enn. Ég mun spyrja nánar út í það á eftir.

Herra forseti. Öll umgjörð þessa máls, og nú er ég aðeins að tala um hana fyrst og síðast, er þannig vaxin að það liggur ekkert lífið á. Allt of mörgum spurningum er ósvarað í þessu máli enn þá til þess að menn geti komið hér og sagt: Þetta er allt í stakasta lagi, við erum búin að vinna þetta svo vel og ef einhver telur eitthvað óunnið í málinu verða menn auðvitað að láta hyggjuvitið ráða.

Þetta er dálítið þess efnis, herra forseti, að ekki er hægt að skauta fram hjá því. Það er ekki hægt að skauta fram hjá því. Þetta lyktar dálítið af sýndarmennsku. Það kom því miður upp hér við 2. umr. málsins af hálfu formanns nefndarinnar og raunar aftur í umræðunni um störf þingsins af hálfu hæstv. dómsmrh. að menn ætla að afgreiða umræðuna með þessum hætti: Við erum hinir hörðu baráttumenn gegn fíkniefnum, þið sem eruð að velta vöngum yfir ágæti þess að víkka refsirammann eruð deigir í baráttunni. Það er þessi svart-hvíta mynd sem menn missa sig í þegar öll rök vantar í málið. Ég frábið mér umræðu af þessum toga. Hún er ekki sæmandi hinu háa Alþingi og ekki þeim hv. þm. eða hæstv. ráðherrum sem taka þátt í henni. Enginn skal væna mig eða mína félaga í Samfylkingunni um það að vera deiga í baráttunni gegn fíkniefnum. Ég bið menn að gæta sín ef þeir ætla að fara að feta þá slóð. Þá skulum við fara í umræðu um störf lögreglu til að mynda. Ég vil rifja það upp hverjir það voru sem tóku þann slag fyrst og síðast núna ítrekað að skapa fíkniefnalögreglunni þær aðstæður að hún gæti unnið verk sín. Eigum við kannski að fara í þá umræðu eða vilja menn fara í þetta hefðbundna dægurþras?

Herra forseti. Þegar fólk hugsar þessi mál og skoðar rök sem að baki liggja áttar það sig mjög fljótlega á því að þetta er ekkert mjög einfalt. Ég hef margsinnis hitt fólk og fékk raunar símhringingar og skeyti eftir 2. umr. máls þar sem fólk bregst fyrst við á þennan veg: Eruð þið eitthvað slappir gagnvart þessum glæpamönnum, þessum hvítflibbaglæpamönnum? Af hverju hafið þið þetta ekki 20 ár? Af hverju stingið þið ekki bara þessum glæpamönnum inn um eilífð alla? Þessi viðbrögð heyrum við þingmenn auðvitað meðal almennings. Þau eru út af fyrri sig skiljanleg. En þegar fólk hugsar nánar um hvaða áhrif slíkt gæti haft þá skynjar það auðvitað að refsigleði leysir engin vandamál í þessum efnum.

Af hverju erum við að setja fólk í fangelsi? Það eru ákveðin grundvallaratriði sem að baki því liggja. Við viljum setja okkur leikreglur og til að samfélagið geti gengið sæmilega fyrir sig verða menn að vera innan þeirra marka. Verði á þeim brotið þá er það sameiginleg krafa samfélagsins að við verði brugðist. Það eru nokkrar leiðir til þess. Við höfum valið að stinga mönnum bak við lás og slá en um leið að reyna að betra þá en með ýmsum hliðaraðgerðum og það er kannski rauði þráðurinn að betra þessa menn. Við erum líka að stinga þeim bak við lás sem fælingaráhrif þannig að menn forðist að brjóta lögin vegna þess að þeir fari í fangelsi og verða innilokaðir. Við erum líka að stinga mönnum í fangelsi til þess að verja saklausa borgara. Þetta eru þau fjögur grundvallaratriði sem að baki liggja. En það er ekkert mjög auðvelt að beita þeim og menn verða að vanda sig mjög vel við það. Ýmsar kenningar í þessum efnum hafa tekið miklum breytingum í tímans rás.

Ég sagði áðan að það vilji verða þannig í hita leiksins og þegar alvöruþrungin mál og alvörumál koma hér upp, að rödd götunnar, rödd fjölmiðla, er yfirleitt alltaf, a.m.k. fyrsta kastið, refsiglaðari en í ljós kemur þegar dómstólar kveða upp dóma sína. Það eru auðvitað undantekningar á því. Það er eðli mannsins að bregðast hart og fast við og hv. þm. eru auðvitað ekkert öðruvísi en aðrir. En þeir eiga hins vegar að vera öðruvísi en aðrir þegar kemur að því að þeir eiga að láta kalt höfuð en heitt hjarta ráða för og reyna að hafa tök á því að kalla allar upplýsingar til áður en mikilvægar og afdrifaríkar og alvarlegar ákvarðanir eru teknar.

Það er undir þeim formerkjum sem ég vil ræða þetta mál hér, herra forseti, en ekki hvort hæstv. ráðherra geti sagt það í erfiðri umræðu í sjónvarpi eða hvarvetna sem er á fundum eða annars staðar að hún hafi sýnt þessa hörku með því að víkka refsirammann. Það er ekki leið í því að ná árangri gegn fíkniefnunum. Það er engin leið og dugar afskaplega skammt þó að hæstv. ráðherra geti veifað því eitthvað tímabundið að þarna hafi hún heldur betur viljað sýna þeim í tvo heimana, þessum fíkniefnabarónum. Það skilar ekki miklu þegar til lengdar lætur.

[12:00]

Herra forseti. Ég mun nú snúa mér að efni málsins en ég verð að biðjast velvirðingar á því hve langt mál mitt er en ég tel mikilvægt að fara ítarlega yfir frv. Hæstv. ráðherra átti þess ekki kost að vera við 2. umr. málsins og því kann að vera að ég þurfi að endurtaka eitthvað af því sem ég nefndi við 2. umr. (Dómsmrh.: Ég hef lesið ræðu hv. þm.) Nú upplýsir hæstv. dómsmrh. það að hann hafi lesið ræður þingmanna. Ég vissi það náttúrlega fyrir en til að hnykkja á fáeinum atriðum þá gæti ég þyrfti að endurtaka örfá atriði.

Fyrst nefni ég til glæný atriði sem ég minntist áður á í framhjáhlaupi. Menn hafa gjarnan sagt nú í seinni tíð að fyrst að sú stjórnskipaða nefnd sem á að kanna sérstaklega afbrot og refsingar mundi ekki ljúka störfum fyrr en í haust þá væri ekki eftir neinu að slægjast hjá henni. Ég sá það í Fréttablaðinu í dag, þar sem m.a. er birt mynd af formanni allshn., en ég vænti þess að hún hafi lesið þessa frétt (ÞKG: Nei.) og raunar er hér líka lítil mynd af hv. af hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, miklu minni heldur en af formanni allshn. Í fréttinni er fjallað um þetta tiltekna mál sem við ræðum hér og nú bið ég hæstv. ráðherra að leggja alveg sérstaklega við hlustir. Í greininni er vísað til rannsóknar sem hefur farið fram á þessu máli. Þar segir orðrétt undir fyrirsögninni Alvarlegar efasemdir um gagnsemi þyngri refsinga, með leyfi forseta:

,,Frumvarp dómsmálaráðherra um að hækka hámarksfangelsisvist fyrir fíkniefnabrot úr tíu árum í tólf ár gengur gegn niðurstöðum rannsóknar`` --- nú bið ég hv. þingmenn að leggja við hlustir --- ,,sem unnin var um áhrif mismunandi refsinga á ítrekunartíðni afbrota. Samkvæmt þeirri rannsókn sjást engin merki þess að þyngri refsingar dragi úr ítrekunartíðni en vísbendingar eru sagðar um hið gagnstæða.

Í skýrslu rannsakenda segir að ítrekunartíðni þeirra sem ljúka fangavist hérlendis sé mjög svipuð því sem tíðkast meðal annarra þjóða, þó sumar þeirrar beiti talsvert þyngri refsingum en Íslendingar. Þá segir að engin merki sjáist um að þyngri refsingar dragi úr ítrekunartíðni en að vísbendingar séu um hið gagnstæða. Því séu þyngri refsingar ekki líklegar til að draga úr líkum á ítrekun.``

Ég spyr: Var hv. allshn. kunnugt um þessa rannsókn og fór hún yfir hana? (Gripið fram í.) Var hv. nefnd kunnugt um hana en fór ekki yfir hana? (Gripið fram í: Þetta er allt önnur rannsókn.) Þetta er allt önnur rannsókn. (Gripið fram í: Það er löngu búið að kynna hana.)

(Forseti (HBl): Samræður eru mjög áhugaverðar en venjan er að þær fari fram í hliðarsölum.)

Ég hafði ekki frumkvæði að því, herra forseti.

(Forseti (HBl): Ég bið hv. þm. að taka tillit til þess.)

Sá sem hér stendur hafði ekki frumkvæði að þessum samtölum. Það var áhugi hv. þm. úti í sal á að eiga við mig orðræðu og það er svo sem ágætt.

Herra forseti. Ég veit alveg að þessi athugun er ekki sú sem Sigurður Tómas Magnússon er að vinna að, það þarf enginn að segja mér það. En hvað sem öðru líður er þessi rannsókn fyrirliggjandi. Hæstv. ráðherra segir hér í frammíkalli, og raunar hv. þm. Ásta Möller líka, að þeim hafi verið fullkunnugt um þessa rannsókn. Ég spyr: Var farið yfir hana? Voru aðstandendur hennar kallaðir til við meðferð málsins? Nei. Hennar er hvergi getið í gögnum málsins, ekki með einu aukateknu orði. Var þessi rannsókn þá svona illa unnin eða hafði hún ekkert gildi fyrir efnisatriði málsins, nákvæm rannsókn á þeim atriðum sem verið er að fjalla um í málinu? Eru þetta enn önnur merki um hin góðu vinnubrögð? Ég spyr.

Síðan kemur til skjalanna í þessu fréttaviðtali að aðstoðarmaður hæstv. dómsmrh. virðist þekkja þessa rannsókn mætavel. Hann segist ekki telja að frv. stangist á við niðurstöður rannsóknarinnar. Nei, hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Í kafla þar sem ítrekunartíðni er greind eftir afbrotum kemur í ljós að niðurstöður könnunarinnar eiga misvel við eftir því hvaða afbrot menn hafa framið. Það kemur í ljós að þær eiga síður við í fíkniefnabrotum.``

Þá fer hins vegar blaðið á stúfana og spyr einn þeirra sem vann að rannsókninni, Kristrúnu Kristinsdóttur, hvort þetta sé rétt hjá aðstoðarmanni hæstv. dómsmrh. Nei, þetta var ekki rétt hjá honum. Kristrún Kritstinsdóttir lögfræðingur sem vann þessa rannsókn ásamt þremur öðrum segir, með leyfi forseta:

,,Niðurstöður rannsóknarinnar taka til allra brota ... Ítrekunartíðni í fíkniefnabrotum er lægri en til dæmis í auðgunarbrotum, en það tengist meira eðli brotanna.``

Dómsmrn. er greinilega á vitlausri leið í þessu máli og af þeirri ástæðu einni saman hefði auðvitað verið full ástæða fyrir nefndina sjálfa og þingið að fara í saumana á málinu.

Síðan er í þessari fréttaskýringu Fréttablaðsins farið yfir hluti sem við þekkjum og ég mun minnast á í örstuttu máli á eftir, umsögn laganefndar Lögmannafélagsins, umsögn dómstólaráðs, ríkissaksóknara. Að lyktum er hér stutt viðtal við málsvara minni hluta og meiri hluta í allshn.

Herra forseti. Það þarf ekki frekari vitnanna við. Sérfræðingar benda á að sú leið sem hér er lagt til að verði farin, sérstök leið í þessum tiltekna brotaflokki, veki a.m.k. upp spurningar og gagnrýni og verði sennilega til meiri skaða en hitt, hafi í besta falli engin áhrif og í versta falli áhrif til hins verra. Þyngri refsingar eru ekki taldar hafa áhrif á ítrekunartíðni og eins og Lögmannafélagið og fleiri sérfræðingar hafa komið inn á geta þær leitt til harðari heims og enn alvarlegri brota, þar sem hið innra samræmi raskist.

Það hefur komið fram í umræðunni, þannig að maður segi það bara hreint út, að til þess geti komið að þeir sem óttast að fá svo harða dóma hiki ekki við að fyrirkoma fólki, hugsanlegum vitnum, vegna þess að refsingar fyrir það verði svo litlu þyngri. Þessu hafa afbrotafræðingar og aðrir sérfræðingar velt fyrir sér, þessu innra samræmi sem gæta verður að og Lögmannafélagið kemur sérstaklega inn á.

Herra forseti. Hvað var það sem menn vildu rannsaka? Enn og aftur vil ég þakka hæstv. dómsmrh., fyrrverandi formanni allshn., fyrir það góða starf sem hún leiddi í þinginu 1997--1998, þegar hún sameinaði allshn. um að standa vísindalega og vel að verki við framgang mála af þessum toga með því að setja saman þáltill. um málið sem var samþykkt, samhljóða held ég. Ég held að það hafi verið algjörlega mótatkvæðalaust. Hæstv. ráðherra, þáv. formaður nefndarinnar, man það eflaust betur en ég. Ég man ekki betur en hér hafi menn almennt fagnað niðurstöðunni og menn hafi horft til þess að þetta gæti verið góður grunnur fyrir framhaldið.

Hjá mér vakna þó nokkrar spurningar. Hæstv. ráðherra hefur setið í embætti í tvö ár. Mér skilst að þessi nefnd hafi hafið störf fyrir þremur mánuðum. Ég spyr: Hvað dvaldi orminn langa? Ég fékk þær upplýsingar hjá fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni að það væru um þrír eða fjórir mánuðir síðan nefndin hóf störf af einhverju viti. Ég verð væntanlega leiðréttur sé það rangt. Ég vona að það hafi verið fyrsta verk nýs dómsmrh. að fletta upp á sínu gamla máli og setja í gang vinnu við þetta verkefni. Ég hlýt að trúa því frekar en að það hafi tekið á þriðja ár en að vísu er þetta mjög viðamikið mál.

Herra forseti. Hér er m.a. kvartað undan því í mjög ítarlegri greinargerð og tillögutextanum sömuleiðis að tölfræðiupplýsingar um sakamál séu ekki aðgengilegar og þar á þurfi að gera bragarbót. Ég vil spyrja hæstv. dómsmrh. um það atriði: Hefur það verið fært til betri vegar? Hefur verið komið upp gagnagrunni til að fá fram tölfræðiupplýsingar um þau mál sem hér eru til umræðu? Hefur því verið snúið til betri vegar frá því þessi þáltill. var samþykkt á sínum tíma?

Við höfum auðvitað heyrt af slíku átaki hvað Schengen-samninginn varðar og flutning fólks milli landa. Það er vel. En hefur verið gert sérstakt átak í þessu, að tölfræðiupplýsingar um sakamál séu aðgengilegar fyrir fræðimenn og aðra til að gera rannsóknir og nauðsynlegar athuganir?

Herra forseti. Í áðurnefndri þál. er einnig kveðið á um að ástæða væri til að kanna hvernig staðið er að refsifullnustu. Þar er vakið máls á mjög mikilvægu máli sem hefur verið talsvert umrætt upp á síðkastið, þ.e. um fullnustu refsinganna, um það þegar tekin er ákvörðun um að veita mönnum reynslulausn. Menn þekkja dálítið umræðurnar um hver eigi að hafa umboð til þess að veita mönnum reynslulausn þegar dómstólar hafi kveðið upp úr með refsingu manna. Ákveðnir lögfræðingar hafa gagnrýnt að óeðlilegt sé að kontóristar og embættismenn hafi þau ráð í hendi sér. Það er auðvitað til ákveðinn lagarammi um þau efni en það fer talsvert eftir hegðun og betrun viðkomandi einstakings, viðkomandi fanga, hvenær hann fær reynslulausn, hvenær er hugsanlega hægt að grípa til samfélagsþjónustu o.s.frv.

Þetta er auðvitað hin hliðin á peningnum í þessari umræðu. Ég spyr því hæstv. dómsmrh., af því að hún telur mikilvægt að senda skýr skilaboð til þeirra sem komast í kast við lögin vegna fíkniefna: Hefur það verið sérstaklega skoðað hvort það hefði verið betri leið að beita reynslulausnum á annan hátt gagnvart þessum föngum en öðrum? Kom til greina að þessi helmings og þrír fjórðu regla ætti ekki að gilda gagnvart þeim? Mörgum finnst það ákaflega skrítið og almenningur veltir fyrir sér hvaða tilgangi það þjóni að kvarta yfir því að refsiramminn í fíkniefnabrotum sé nánast að springa, þessi tíu ár, en síðan fái menn lausn í stórum stíl eftir að hafa afplánað helming refsivistar. (Gripið fram í: Vill þingmaðurinn harðari refsingar?) Nei, ég er að velta upp ýmsum álitamálum sem gera það að verkum að þetta er ekki jafneinfalt og menn vilja vera láta. Þessi skilaboð eru ekki jafneinföld og menn vilja vera láta. Þetta snýst ekki bara um að breyta tölunni 10 í 12. Þetta snýst um eilítið meira en það. Það veit hæstv. dómsmrh. Og ég skil afskaplega vel að ráðherranum líði illa undir þessari efnislegu og málefnalegu umræðu, því rökin fyrir máli hennar vantar.

Ég er að velta þessu upp, herra forseti, af því að þetta er í greinargerð með þál. sem Sólveig Pétursdóttur, þáv. formaður allshn. og hv. þm., fékk samþykkta á 122. löggjafarþingi. Þar er hvatt til að kanna alveg sérstaklega refsifullnustu í framkvæmd. Hér segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Einnig væri ástæða til að kanna hvernig staðið er að refsifullnustu í framkvæmd og hvort auka megi varnaðaráhrif refsinga eftir því hvernig staðið er að fullnustu refsivistar innan fangelsa ... ``

[12:15]

Það er undir þessum formerkjum sem ég er að ræða málið. Ég var að reyna að gera það með einföldum hætti þannig að allir mundu skilja, hvort það væri hugsanleg leið að senda skýr skilaboð til fíkniefnabaróna og annarra að þeir ættu ekki von á því að fá reynslulausn að hálfu. Það er það sem hv. þáv. formaður allshn. Sólveig Pétursdóttir --- Herra forseti. Ég geri örstutt hlé á ræðu minni. Ég hygg að hæstv. ráðherra hafi þurft að fara í símann. En ég er einmitt í orðræðu --- þarna er hún komin. Komi hún fagnandi. Það er erfitt að henda reiður á öllum hliðarsölum. (LB: Er svona mikil yfirferð á ráðherranum?)

Ég var að ræða hvort þetta atriði hafi verið skoðað sérstaklega í ráðuneytinu við samningu frv. af því á þetta bendir hv. þm., þáv. formaður allshn., Sólveig Pétursdóttir, sérstaklega í sinni greinargerð, þ.e. hvort skoða beri fullnustuna sérstaklega.

Ég spyr því beint: Var þetta atriði skoðað sérstaklega, að beita sértækum aðgerðum gagnvart þessari tegund refsinga, fullnustunni, fremur en að eiga það á hættu að raska innra samræmi varðandi refsirammann? Ég spyr hæstv. ráðherra. Ég vænti þess að hún hafi íhugað þetta mál mjög alvarlega því að hún taldi fyrir þremur árum síðan gilda ástæðu til það láta skoða það alveg sérstaklega.

Síðan er líka getið um það hér að mikilvægt væri að gera samanburð við önnur Norðurlönd. Og eitthvað hefur nú áunnist í þeim málaflokki því ég held að það hafi verið svo í greinargerð með frv. að menn voru að reyna þennan samanburð og það er vel. Eitthvað hefur því gerst milli þess að þessi till. til þál. var samþykkt að frumkvæði hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur þar til hæstv. dómsmrh. Sólveig Pétursdóttir leit á það verkefni. Það hefur sem sagt eitthvað gerst. Menn hafa eitthvað skoðað refsilöggjöf annarra Norðurlanda. Og það er vel. Ég þakka alveg sérstaklega fyrir það. En önnur atriði eru hins vegar óathuguð enn þá, því er nú verr og miður, eftir því sem ég best veit. En ég vænti þess að í ítarlegri ræðu hér á eftir muni hæstv. ráðherra gera okkur glögga grein fyrir efnislegri stöðu málsins. Ég veit allt um hina formlegu stöðu þessarar nefndar. Ég þarf ekkert að heyra meira um það. Hún er ekki búin og verður ekki búin fyrr en í haust. En ég vil vita um hina efnislegu stöðu málsins, þau efnislegu atriði sem er að finna í greinargerð með þessari tillögu, í tillögugreininni sjálfri, þar sem bent er á ýmis atriði sem vísa þráðbeint inn í þá umræðu sem við eigum hér.

Síðan var óskað eftir því að rannsakað yrði hvort unnt sé yfirleitt að mæla hvort refsingar við tilgreindum brotum hafi þyngst almennt eða séu nú vægari en áður.

Herra forseti. Við fjölmörg önnur atriði í þessari greinargerð og þessari þál. væri full ástæða til að staldra hér. Ég vænti þess náttúrlega að allir hv. þm. sem sitja í allshn. hafi nú þegar lúslesið þessa þingsályktun Alþingis, þessa tillögu Alþingis sem samþykkt var hér 1998 og vakin var athygli á hér við 1. umr. og enn frekar við lok 2. umr. og þetta geri ég að því gefna tilefni að það vantaði dálítið í hópinn.

Herra forseti. Ég bað forseta að kanna hvort varaformaður allshn., þ.e. fulltrúar Framsfl. í allshn., hvort þeir væru nokkuð á staðnum. Niðurstaðan er greinilega sú að þeir hafi ekki verið hér. Ég var að kvarta yfir þessu af því ég taldi mikilvægt að Framsfl. kæmi með einhverju móti að þessari umræðu. Ég vildi bara halda því til haga. Ég trúi því að hæstv. forseti hafi kannað þetta.

(Forseti (HBl): Forseta er ljúft að láta kanna það.)

Ég held að sú könnun hafi farið fram áðan þannig ég vænti þess að ...

(Forseti (HBl): Forseta er mjög ljúft að kynna sér málið.)

Ég þakka fyrir það.

Herra forseti. Þetta var um þessa tillögu. Það verður væntanlega upplýst hér betur á eftir fyrir okkur þingmönnum sem ekki sitjum í allshn. hvaða upplýsingar voru veittar á þessum fimm eða tíu mínútum um stöðu þessa nefndarstarfs. Þess var getið hér í ræðustóli að nefndarstarfinu lyki í haust. Væntanlega hefur eitthvað meira verið sagt. Eftir því sem ég best veit upplýsti starfsmaður ráðuneytisins um þetta en ekki formaður nefndarinnar eða starfsmenn nefndarinnar. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra geri hér glögga grein fyrir starfi nefndarinnar fram að þessu, starfsmannahaldi þar, verklagi og vinnubrögðum og hvort nefndinni hafi verið gert sérstakt erindisbréf eða hvort sú ítarlega greinargerð sem fylgdi tillögunni á sínum tíma hafi verið látin nægja. Ég óska eftir því sérstaklega að ráðherrann geri okkur grein fyrir því. Væntanlega hefur það verið upplýst allt saman á þessum fimm mínútum í allshn. á miðvikudaginn. En ég sit ekki í henni þannig að ég verð að heyra það hér í þessum sal.

Ég vil nefna fleiri efnisatriði. Ég hygg að hv. þingmenn hafi lagt við hlustir, ég held það hafi verið á miðvikudaginn í kvöldfréttum, þegar talað var við Erlend Baldursson sem um langt árabil hefur unnið við þessi mál, fyrst við skilorðseftirlitið en nú hygg ég hann starfi við Fangelsismálastofnun. Hann sá engan plús í þessu máli. Hann talaði nánast mjög í samræmi við ábendingar sem komu fram í dómstólaráði. Hann talaði raunar eins og afbrotafræðingar hafa gert í málum af þessum toga. Þeir hafa bent á að þyngri refsingar geti leitt til harðari og skipulagðari brotastarfsemi. Afbrotafræðingar hafi bent á að það geti leitt til þess að brotamenn svífist einskis til að forðast að upp um þá verði komið eða til að komast hjá handtöku, að brotamenn vopnist, vitnum kunni að verða ógnað og lögreglu veitt viðnám við handtöku. Þekkja menn kennileitin? Þekkja hv. þingmenn kennileitin? Og telja hv. þm. að einmitt við þessar aðstæður séu réttu skilaboðin að herða enn refsingar og auka áhættuna á þessum þáttum?

Ég hef dálitla tilhneigingu til þess að taka mark á sérfræðingum. Ég gleypi ekkert allt hrátt sem þeir segja og vil reyna að vega og meta það. En í þessu sambandi hef ég mikla trú á t.d. þessum tiltekna manni sem ég veit vel að þekkir fangelsismál, fanga, refsivistina og áhrif hennar, eins og fingurna á sér. Ég hef tilhneigingu til þess að leggja við hlustir þegar maður á borð við Erlend Baldursson geldur varhug við þessu. Ég spyr hæstv. dómsmrh.: Bregður henni ekki dálítið í brún að heyra þessi varnaðarorð? Þessi maður er á hennar forræði og auðvitað eru hæg heimatökin að kalla eftir upplýsingum þaðan. Þessar upplýsingar eru mjög sláandi. Ég spyr hæstv. dómsmrh.: Finnst henni þetta ekki sláandi viðbrögð? Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af þeim? Hefur nefndarfólk í allshn. ekki áhyggjur af því að þessi viðbrögð sérfræðinga komi nú á milli umræðna ofan á athugasemdir og áhyggjur sem lýst hefur verið hér í þessum sal? Ég held að svo hljóti að vera, herra forseti. Ég held að annað geti ekki verið. Ég vil ekki trúa því að menn séu svo staffírugir hér að þeir láti sem ekkert sé.

Herra forseti. Ég gleymdi að hnykkja á því og tel fulla ástæðu til þess að gera það, að mér er sagt að formaður nefndarinnar sem á að framkvæma þessa rannsókn á refsingum við afbrotum sé Sigurður Tómas Magnússon. Ég sagði líka að ég hefði séð einhvers staðar í einhverjum netmiðlinum um daginn það sem ég vissi ekki við 2. umr. máls, þ.e. að þessi sami ágæti maður er jafnframt formaður dómstólaráðs. Nú er það svo að dómstólaráð sendi umsögn inn til nefndarinnar við meðferð málsins.

(Forseti (HBl): Forseti vill upplýsa hv. þm., og biður hann afsökunar á því að hér er gripið inn í, að hv. 16. þm. Reykv., varaformaður allshn., Jónína Bjartmarz hefur fjarvistarleyfi í dag og hv. 12 þm. Reykv., Ólafur Örn Haraldsson, er erlendis og hefur því ekki tök á að koma.)

Þá er lítið við þessu að gera, herra forseti. Þá verður Framsfl. auðvitað stikkfrí í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Það er orðið venja frekar en undantekning hér og kemur mér svo sem ekkert á óvart. Ég þakka forseta fyrir þessa athugun.

Ég var að gera grein fyrir því að formaður þessarar rannsóknarnefndar er jafnframt formaður dómstólaráðs og dómstólaráð taldi sig knúið til þess að senda inn umsögn um þetta frv. þó að ráðið sjálft sé mjög meðvitað um að dómarar eigi ekki að reyna að hafa bein áhrif á löggjöf og lagasetningu hér og það er tekið sérstaklega fram, en þó eru að vísu nefnd undantekningartilfelli. Þeir telja sig hins vegar knúna til þess að gera alveg sérstakar athugasemdir við það sem er í raun burður þessa máls af hálfu stjórnarmeirihlutans, nefnilega það að refsiramminn samkvæmt 173. gr. a sé nánast að fullu nýttur í alvarlegustu fíkniefnabrotum. Það er bara einfaldlega ekki svo. Í tveimur málum hafa menn hrokkið upp í níu ár.

Eftir því sem mér skilst --- ég get ekki skotið undir það tölfræði --- hafa dómstólar enn þá svigrúm komi til þess að dæma þurfi upp í tíu ár því hægt er að dæma tengd afbrot samkvæmt öðrum ákvæðum hegningarlaga. Það er því miður þannig, herra forseti, eins og hv. þingmenn vita, að það er ekki eingöngu hið hreina og beina fíkniefnabrot sem um ræðir. Allt of oft er það því miður þannig líka að með fylgir peningaþvætti, með fylgja líkamsmeiðingar, auðgunarbrot og ógnanir við náungann. Saksóknari hefur því þau ráð í hendi sér, ef um mjög alvarleg mál er að ræða, að sækja þetta allt saman og dómstólar geta með öðrum orðum úrskurðað um hámarksrefsingu í fíkniefnamálum og síðan raunar um önnur afbrot líka. En þá verða þeir að veita afslátt, 50%, ef ég man rétt, af hámarksrefsingu.

Það er því bara ekki rétt, herra forseti, og verður að halda því mjög ákveðið til haga hér, að þessi refsirammi sé sprunginn. Það er ekki rétt. Menn verða að halda sig við staðreyndir máls hvort sem þeim líkar betur eða verr. Og það er ekki bara af því ég segi það. Það vegna vegna þess að dómstólaráð, dómararnir sjálfir með formann nefndar hæstv. ráðherra í broddi fylkingar, gera alveg sérstakar athugasemdir við þá fullyrðingu ráðuneytisins og nú aftur allshn. Og Lögmannafélag Íslands, sem ég ætla nú að tala betur um hér á eftir, gerir það enn frekar.

Herra forseti. Grunnur málsins er gisinn. Hann er veikur. Hann er slappur svo ekki sé nú talað um aðra þætti máls.

[12:30]

Dómstólaráð með hv. formann þess og formann rannsóknarnefndar hæstv. dómsmrh. í broddi fylkingar, segir líka orðrétt, með leyfi forseta:

,,Enda þótt þróunin hafi orðið sú á síðustu árum að sífellt alvarlegri fíkniefnabrot hafi komið til dómstóla og refsingar hafi þar af leiðandi orðið þyngri má alls ekki draga þá ályktun af því að dómarar vilji refsa enn harðar fyrir þessi brot og því verði að hækka refsihámarkið.``

Dómarar eru ekkert að kalla eftir þessu frv. Til hvers er þá leikurinn gerður?

Það er auðvitað dómstólanna að ákvarða um það en dómstólaráð telur sig knúið til þess að koma þeim skilaboðum á framfæri til löggjafarþingsins að ekki sé ákall um það af þeirra hálfu að hækka refsirammann. Hvað er þá á ferðinni? Af hverju erum við að þessari umræðu hér? Þeir segja hér, herra forseti, dómarar og dómstólaráð, með leyfi forseta:

,,Áður en ráðist er í að víkka refsirammann með því að hækka hámarksrefsingu þarf að ýmsu að hyggja, t.d. samræmi hámarksrefsingar í ákvæði því sem til umfjöllunar er og í öðrum refsiákvæðum.``

Enn og aftur ábending um innra samræmi. Það eru dómstólaráð, það eru dómarar í þessu landi sem ætla að dæma eftir þessum lögum sem eru að koma þessum skilaboðum til okkar. Hvað þarf eiginlega til, herra forseti, þannig að rök nái í gegn ef ekki þetta? Hvað þarf eiginlega til?

Ég spyr hæstv. dómsmrh. af því ég er búinn að eiga orðastað við hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur, formann allshn., um þetta mál við 2. umr. málsins: Skiptir þetta engu máli að mati hæstv. dómsmrh.? Hún gat auðvitað ekki vitað um þessa afstöðu dómstólaráðsins áður en hún lagði frv. fram. En við meðferð málsins í nefnd kom þó þrátt fyrir allt þetta m.a. út úr því að dómarar sjá enga ástæðu fyrir þessu sem var eiginlega kjarnaatriði málsins og gerði það að verkum að menn fóru af stað í upphafi, þetta veiti dómurunum meira svigrúm til að dæma harðari refsingar. Þetta er allt eintómur misskilningur, herra forseti. Þetta mál virðist allt standa á brauðfótum. Ég spyr þráðbeint og óska eftir svari hér: Tekur hæstv. dómsmrh. ekki mark á dómstólaráði og ábendingum þess í þessum efnum?

Auðvitað benda dómarar á það að hækkun refsihámarks leiðir ekki eitt og sér til breytinga á viðmiðun dómstóla um refsihæð. Alþingi Íslendinga tekur ekki ákvörðun um einstakar refsingar. Það eru dómarar í landinu. Það er þrískipting ríkisvaldsins. Það er dómstólaráðið, herra forseti, hugsum okkur það, það er dómstólaráðið, þar sem formaður er jafnframt formaður rannsóknarnefndar hæstv. dómsmrh. sem sér sérstaka ástæðu til að leggja lykkju á leið sína til að segja hv. alþm. hvaða afleiðingar það geti haft ef menn missa sig í refsigleðinni. Það eru þeir, herra forseti, sem vekja á því athygli að þyngri refsingar geti leitt til harðari og skipulagðari brotastarfsemi.

Nú vænti ég þess ekki að þeir séu neinir sérstakir sérfræðingar einmitt í þeim efnum, hafa auðvitað verulegt inngrip reynslu sinnar vegna og þekkingar sinnar vegna. Þeir benda á þetta og eru að koma þeim skilaboðum til hv. alþm. Ég vil leggja við hlustir. Ég hlýt að trúa því að þegar menn skoða hug sinn, vilji menn og hv. þm. leggja við hlustir og taka mark á en stingi ekki höfðinu í sandinn.

Dómstólaráð hnykkir eðlilega á því hér, bæði í upphafi bréfs og lok bréfs, að það ætli sér að öðru leyti ekki að hafa áhrif á gang mála á hinu háa Alþingi enda beri því ekki að gera það. Það ber að virða. En skilaboðin, herra forseti, eru algjörlega kvitt og klár. Algjörlega skýr: Gætið ykkar. Nú er hv. Alþingi á vafasamri braut.

Hins vegar þarf Lögmannafélag Íslands ekkert að gæta sömu varkárni formsins vegna með því að skýra skilaboð sín gagnvart þessu álitaefni. Lögmannafélag Íslands er frjálst að skoðunum sínum og getur haft þær eins og það vill og það gerir það hikstalaust í þessu máli og telur þetta lagafrv. fullkomlega ástæðulaust og engin efni til þess að flytja það.

Ég man ekki betur, herra forseti, á árum áður þegar hæstv. dómsmrh. var formaður allshn. að oftar en ekki hafi hún einmitt tekið mikið mið og mark af Lögmannafélagi Íslands. Svo ég tali ekki um dómstólaráðið. Og hún hafi hér oftar en einu sinni, oftar en tvisvar og oftar en þrisvar, í framsöguræðu sinni með nefndarálitum, lagt á það mikla áherslu að Lögmannafélag Íslands væri málinu sammála og dómstólaráð Íslands gerði ekki athugasemd við frv. Nú virðist það skipta minna máli. En Lögmannafélag Íslands eða laganefnd þess, þannig að öllu sé nú rétt til haga haldið, bendir einnig á þetta innra misræmi og segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Enn er þó ekki svo komið að mati laganefndar, að farið sé að reyna efri mörk refsiramma 173. gr. a almennra hegningarlaga og alls ekki svo, að réttlæti að sá málaflokkur sé tekinn út sérstaklega og refsirammi þar hækkaður, í stað þess að ákvörðun um það bíði heildarendurskoðunar á refsirömmum einstakra brotaflokka.``

Förum okkur hægt, segja þeir. Þessi fullyrðing hæstv. dómsmrh. í greinargerð með frv. sem er endurtekin í nál. meiri hlutans, um að refsiramminn sé sprunginn, er röng. Hún er einfaldlega röng, segir Lögmannafélag Íslands. Þeir ættu að vita það. Þeir vinna við þetta daginn út og inn. Þeir ættu að hafa einhverja smáinnsýn í það, þeir menn sem eru að vinna við þessi verkefni. Þeir segja einfaldlega fullyrðingar ráðuneytisins, fullyrðingar allshn. rangar. Það er ekki svo komið að þessi refsirammi sé sprunginn. Það er ekki svo komið að það þurfi að breyta sértækum aðgerðum til að víkka hann sérstaklega úr öllum takti við önnur viðurlög. Þeir segja það bara.

Getur það verið skýrara, herra forseti? Nei, það getur það ekki. Enginn skal ætla það að dómstólaráð Íslands eða Lögmannafélag Íslands gangi einhverra sérstakra erinda minni hlutans á hinu háa Alþingi. Hafi allt í einu gengið í Samfylkinguna bara til að klekkja á hæstv. dómsmrh. eða sjálfstæðismönnum í allshn. Nei, þeir eru að reyna að nálgast málið málefnalega og gera það af þekkingu, yfirsýn og víðsýni. Það er það sem við erum að reyna að gera líka við þessa umræðu. Það breytir engu, herra forseti, þó að hv. þm., jafnvel þótt þeir séu formenn tiltekinna nefnda, dæsi hér og þreytist á þessari orðræðu.

Ég vil segja það, herra forseti, að nefndarmenn meiri hlutans í allshn. hafa kallað yfir sig þessa yfirgripsmiklu umræðu. Á henni hefði vafalaust ekki verið þörf ef menn hefðu unnið heimavinnu sína almennilega. Það er af þeim ástæðum sem ég tel fulla ástæðu til að rekja þau grundvallaratriði sem eru til staðar.

Í 2. umr. málsins var því veifað ótt og títt að ríkissaksóknari hefði engar athugasemdir eða ábendingar fram að færa vegna lagafrumvarpsins að undanskildu því að undir þá ályktun er tekið að refsimörkin samkvæmt 173. gr. a hafi verið nýtt nánast að fullu í alvarlegustu fíkniefnabrotum.

Herra forseti. Er það ekki eðli máls samkvæmt að ríkissaksóknari, sem sækir gjarnan eftir hámarksrefsingu og teygir sig eins langt og nokkur kostur er, síðan er það auðvitað dómstóla og verjenda að vefengja það og síðan dómstóla að úrskurða, sé þessarar skoðunar? Mér finnst það eiginlega liggja í eðlinu. Að öðru leyti leggur hann enga sérstaka áherslu á málið.

Herra forseti. Mál af þessum toga mega ekki verða leidd til lykta. En ég get ekki látið hjá líða af því að ég ætlaði að fara að minnast á ríkissaksóknara að einmitt í fréttunum ekki fyrir margt löngu hafði einn starfsmanna hans, Kolbrún Sævarsdóttir, sem ég kann nú ekki deili á en ætli hún sé ekki aðstoðarríkissaksóknari eða starfsmaður hans í öllu falli, það á orði í viðtali við tímarit að hér væru fíkniefnadómar æðiþungir miðað við önnur Evrópulönd. Það var ekki að skilja á því viðtali að það væri sérstök eftirspurn hjá embættinu eftir því að refsiramminn víkkaði til þess að ríkissaksóknari gæti krafist hærri refsinga og lengri refsinga. Þessar raddir koma meira að segja innan úr herbúðum ríkissaksóknara og átti ég nú satt að segja ekki alveg von á því.

Herra forseti. Að lokum þetta: Hæstv. dómsmrh. sagðist hafa lúslesið ræðu mína og annarra hér við 2. umr. máls og dreg ég það ekki í efa eitt aukatekið andartak. Ég verð að játa að ég hafði ekki lúslesið ræðu hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur frá árinu 1998 þegar hún mælti fyrir þessari till. til þál. um rannsókn á refsingum við afbrotum. Ég þyrfti að gera það á eftir og ég ætla ekki að vitna í hana í þessari ræðu minni en áskil mér þó rétt á að gera það á eftir. Ég held það væri hins vegar hyggilegt fyrir hæstv. dómsmrh. sjálfa að líta aðeins yfir þá ræðu sína árið 1998 þar sem kveðið er á um mikilvægi þess að menn hafi heildarmyndina fyrir fram sig þegar viðkvæmar ákvarðanir af þessum toga eru teknar. Í þeim anda orðræðu hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur frá árinu 1998, sem er mjög í anda þess sem ég er að segja hér, ætla ég að ljúka ræðu minni.