Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 12:52:38 (6991)

2001-04-27 12:52:38# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[12:52]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. ,,Ég vil ekki ætla Samfylkingunni það að hún vilji verja fíkniefnasala.`` Hvers lags er þetta eiginlega, herra forseti? Hvers lags er þetta? (ÁMöl: Ég sagði það.) Manni er gjörsamlega orðavant í þessu samhengi. Ég vil nú bara halda því til haga, því hv. þm. fór yfir sviðið í heild og breidd, áfengis- og fíkniefnabaráttuna og meðferðarúrræði og fræðslustarfið og annað því um líkt og þakkaði fyrir að við vildum vera í för með ríkisstjórninni, að ég veit ekki hver hefur átt mest frumkvæði að því hér í þessum þingsal aðrir en hv. þingmenn Samfylkingarinnar. Ég veit ekki betur en það séu hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem hafa hér með hverju frv. á fætur öðru verið að þétta raðirnar í þessum efnum yfirleitt og taka heildstætt á málum. En yfirleitt hefur ríkisstjórnin ekki henglast með.

Herra forseti. Það er ósköp augljóst og skiljanlegt að hv. þm. vilji auðvitað ekki ræða efni máls, en detta í það fúafen með hæstv. ráðherra að segja að þeir sem eru ekki með oss þeir eru á móti oss og þeir sem vilja ekki fara þá leið að hækka hér refsingar úr tíu árum í 12 ár sem viðurlög við fíkniefnabrotum, séu deigir í baráttunni gegn fíkniefnum.

Þetta er bara tóm þvæla. Það er búið að fara yfir þetta mál. Ég gerði það í klukkutíma hér áðan. Ég þarf greinilega annan eða tvo, til þess að þetta komist í gegn. Ég er að fara yfir málefnaleg rök málsins. Hefur þetta áhrif? Skiptir þetta máli? Er þörf á þessu? Um það snýst málið. Hvernig væri að tala um það en ekki eitthvað allt annað?