Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 13:50:52 (7002)

2001-04-27 13:50:52# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19 frá 12. febrúar 1940.

Þetta mál hefur verið til meðferðar í hv. allshn. og hefur verið rætt hér í allan morgun og hefur hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson farið afar ítarlega yfir málið.

Mig langar að segja nokkur orð um málið. Því miður var ég ekki viðstödd 2. umr. og gat því ekki tekið þátt í henni. En það eru ákveðnir þættir sem mig langar að koma að.

Fyrir það fyrsta er rétt að rifja upp að þingið synjaði því að ...

(Forseti (HBl): Ég bið hv. þm. afsökunar, en ég sé ástæðu til að biðja hv. þm. sem ekki hafa orðið um að hafa það í huga að þeir hafa ekki orðið.)

Ég vil bara benda hv. þingmönnum á að hvíslast á.

Þetta mál hefur vakið mikla umræðu innan þingsins sem utan. Það hefði náttúrlega verið eðlilegasti hlutur í heimi að nefndin færi aðeins yfir málið aftur og fengi Sigurð Tómas Magnússon, sem er formaður þeirrar nefndar sem skipuð var á árinu 1997 eða 1998, til skrafs og ráðagerða. En það var hins vegar upplýst í upphafi aukafundar allshn. af embættismanni dómsmrn. að sú nefnd væri komin á gott skrið og væri Sigurður Tómas Magnússon í þessu núna eiginlega í fullu starfi eftir því sem mér skildist og jafnframt væri Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur að vinna með honum.

Þessi vinna er að sjálfsögðu algjörlega til fyrirmyndar. Það kom líka fram að þetta er vinna sem gengur tiltölulega hratt fyrir sig og mun vinnunni verða hraðað þannig að skýrslan ætti að vera tilbúin með haustinu.

Ég vil einnig taka undir það að þessi þáltill., sem var samþykkt þegar núv. hæstv. dómsmrh. var formaður allshn., er um margt algerlega til fyrirmyndar. Það er kannski sérstaklega út frá því að þessi vinna er að koma fram. Og er það vinnulag sem má temja sér í enn fleiri málum.

Þess vegna skilur maður ekki alveg af hverju ekki var beðið með niðurstöðu hennar og tillögur gerðar út frá þeim niðurstöðum, því að við getum þess í áliti minni hlutans að okkur finnist óeðlilegt að taka núna strax út einn refsirammann og hækka hann án þess að fyrir því liggi afar gild rök önnur en þau að inn á markaðinn sé að flæða mikið af hörðum efnum.

Hörð efni eru eða slíkir flokkar eru í rauninni þeir sömu hvort sem það er amfetamín, kókaín, heróín eða morfín. Þau efni eru öll þess eðlis að mjög þungir dómar hafa fallið í málum sem tengjast þeim og mundi heróín ekki vera neitt undanskilið þar, eða morfín. Það er því kannski ekki endilega það.

Ekki má heldur gleyma því að dómur er eitt og afplánun er annað. Og það er kannski það sem þarf líka að koma inn í umræðuna.

Það er þannig með þennan brotaflokk og þessi dópmál að það sem hefur kannski hvað mest áhrif varðandi þau mál er forvörnin. Það er forvörnin, samstarf tollvarða og lögreglu og allir þeir samverkandi þættir. Það er það sem er mikilvægast í þessum málaflokki. Og um það eru allir sammála. Á það þarf að leggja sem mesta áherslu, því að ef til vill hafa foreldrar og þeir sem hafa átt um sárt að binda í þessum málaflokki kannski um of einblínt á að refsingin væri aðalatriðið, en rétt er að það komi fram enn einu sinni að dómur er eitt og afplánun er annað. Þó að dæmt sé í átta ár er ekki þar með sagt að afplánun sé átta ár. Það er því spurning um að láta þetta hanga á einhvern annan hátt saman.

Meðal fræðimanna, afbrotafræðinga, félagsfræðinga og annarra, eru allir sammála um að hækkun á refsingum hefur afskaplega lítil fælingaráhrif fyrir þennan markað, afar, afar lítil, því miður. Meira að segja hafa verið að koma fram upplýsingar um að ákveðin áhættuþóknun er í því hjá dópsölum einmitt um það hversu háan dóm þeir gætu fengið og hversu margra ára viðskipti þeir gætu fengið og þar með hækkað efnin með tilliti til þess. Þetta er markaður sem er gjörsamlega neðan jarðar og er alveg með óheyrilegt magn af peningum og með óheyrilega útsmogna starfsemi og útsmognar áherslur á hvað dóp kostar og af hverju það kostar það sem það kostar. Það væri því mjög gagnlegt fyrir þingmenn að kynna sér það.

Ég hef setið í áfengis- og vímuvarnaráði og hafði mjög mikla ánægju af þeirri vinnu sem þar fer fram og þar er afar margt að gerast. Og ég vil enn leggja áherslu á forvarnir. Ég held að fælingaráhrifin verði engin, því miður, með þessari hækkun.

Við sjáum núna t.d. það sem er að gerast í samræmdu prófunum í 10. bekk, því allt byrjar þetta einhvers staðar. Einhvers staðar byrjar þessi vítahringur að skapast, hann byrjar auðvitað í áfengi og síðan byrja krakkar að fikta og svona gengur þetta koll af kolli og síðan er fólk orðið háð efnum og þá hringiðu þekkjum við öll. En eins og ég sagði áðan, fælingaráhrifin eru engin með hækkun.

Einnig hefur komið í ljós og á það var bent í hádegisfréttum og ég fékk það núna inn tíl mín, að verið er að kynna rannsókn sem nær yfir öll lönd Vestur-Evrópu og niðurstaða hennar er sú að refsing hefur engin áhrif á brotin. Alveg sama hversu refsiramminn er hár. Það hefur ekki fælingaráhrif, nema ef vera kynni --- og mega hv. þm. nú geta í hvaða málaflokki. Það er auðvitað í kynferðisafbrotamálum og sérstaklega í sifjaspellsmálum. Því að um leið og það er viðurkennt að þau fyrnist t.d. ekki og með því að hækka refsirammann, þá er gagnvart þeim brotaflokki gríðarleg fælingaráhrif, í slíkum leyndardómsmálum. Því að um leið og þau fara að koma upp á yfirborðið, þá er auðvitað andskotinn laus. Þar virðist því vera um meiri fælingaráhrif að ræða en í mörgum öðrum málaflokkum.

En það er mjög athyglisvert að líta á niðurstöðu könnunarinnar. Það virðist ekki vera samhengi á milli hárra refsinga og þess hvort brot aukast eða ásetningur til brota. Það virðist ekki hafa áhrif, enda hefur það komið fram hér í máli manna að þynging dóma hafi ekki áhrif á það hversu margir eru í dópbransanum.

Það sem hefur einnig verið að gerast hér er það að við höfum verið að þyngja dóma, þ.e. léttari mál hafa verið að fá þyngri dóma en ella. Þar með er þröskuldurinn hækkaður. Og það er kannski þar sem þetta byrjar allt saman. Síðan má alltaf ræða það hvort tíu ár sé nægjanlegt eða ekki.

Ég vil hins vegar fara að nýta þá vinnuaðferð að við fáum ákveðnar úttektir og að við byggjum tillögur okkar á þeim. Það er hins vegar ekki vilji meiri hluta þingsins að fara þá leið þrátt fyrir að fyrir liggi þáltill. um það sem var samþykkt. En hún mun kannski gagnast okkur í öðrum brotaflokkum því að sú nefnd sem er að störfum mun kanna bæði kynferðisafbrotin og líkamsárásirnar. Kannski gagnast sú vinna okkur afar vel í þeim þungu málum líka og verður það okkur vonandi til framdráttar.

[14:00]

Sú vinna á kannski eftir að skila sér í röð frv. um þau mál og jafnvel einhverjar frekari breytingar á dómum í dópmálum. Við vitum það ekki enn þá.

Ég vil bara benda þingmönnum á að kynna sér aðeins þá skýrslu sem komin er fram um þróun afbrota og tengingu við refsingar, þ.e. um að það er afskaplega lítið samhengi þar á milli. Og í niðurstöðu þessarar rannsóknar er jafnframt bent á að í fangelsunum eigi að fara fram uppbyggilegt starf til að reyna að rjúfa þann vítahring sem síbrotamennska er.

Eins og fram hefur komið fannst okkur óeðlilegt að taka út einn refsiramma umfram annan. Við hefðum heldur viljað sjá heildstæða vinnu í gangi og skoða fleiri refsiramma. En það gengur ekki eftir að sinni. Ætla ég ekki að hafa fleiri orð, herra forseti, um þetta mál.