Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 14:01:35 (7003)

2001-04-27 14:01:35# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. vakti athygli á ýmsum atriðum sem ágætt er að fá inn í umræðuna. Ég er alveg sammála henni um að það þarf að huga mjög vel að forvörnum í tengslum við fíkniefnamálin en það er líka stefna ríkisstjórnarinnar. Lagt hefur verið mikið fé í þennan málaflokk. Það er lögð áhersla á að efla löggæsluna, fjölga mönnum þar, bæta menntun, efla tollgæslu og gera allt sem hægt er til þess að vinna gegn þessum vágesti, snúa við þessari óheillaþróun. Frv. er, eins og hér hefur áður verið minnst á, hluti af þessum pakka öllum, þ.e. að vinna gegn fíkniefnunum.

Ég kom sérstaklega upp vegna þess að hv. þm. nefndi það og sagði það sína skoðun og að fyrir því væru rök að fangelsi hefðu ekki áhrif á sakamenn í fíkniefnamálum. En það kemur einmitt fram í þessari skýrslu til íslenskra stjórnvalda um rannsókn á ítrekunartíðni afbrota að það er svo sérstakt með þennan málaflokk, fíkniefnamálin, að þar virðist ítrekunartíðni manna sem dæmdir í fangelsi vera fremur lág. Þar virðist refsingin hafa áhrif. Svo þurfum við líka að hugsa til þess að þegar menn eru dæmdir í fangelsi þá er það auðvitað refsing en það er líka hægt að nýta refsinguna til þess að gera menn að betri mönnum og hjálpa þeim til að komast aftur út í samfélagið.