Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 14:05:51 (7006)

2001-04-27 14:05:51# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[14:05]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég ætla rétt aðeins að blanda mér í þessa umræðu og líta á þau sjónarmið sem menn hafa í huga þegar þeir ákvarða refsingu þeirra sem brjóta lögmál samfélagsins. Það hefur ekki komið nægilega skýrt fram nema lítillega í ágætri ræðu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar fyrir hádegi.

Þau sjónarmið sem höfð eru í huga eru:

1. Hefnd.

2. Geymsla.

3. Fæling.

4. Betrun.

Hefndin var ríkjandi sjónarmið, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, áður en kristinn siður var tekinn upp, bæði hér á landi og annars staðar. Dæmi um það er Gamla testamentið og Njála. Almennt hefur verið talið að hefndin eigi ekki að ríkja sem sjónarmið við refsingar en hún á sér þó enn þá fylgjendur og kemur upp öðru hverju.

Hin sjónarmiðin, þ.e. geymslan, það að geyma sakamanninn fyrir samfélaginu þannig að hann sé ekki að halda áfram að brjóta á samborgurum sínum, fælingin og betrunin eru sjónarmið sem enn eru í gildi og koma upp öðru hverju í ýmsum málum.

Refsingar hljóta að hafa mjög mismunandi áhrif eftir því um hvaða brot er að ræða, hvort það eru ástríðubrot sem eru framin í augnabliksæði, í ákveðinni geðveiki, hvort það eru þvingaðir glæpir eins og oft og tíðum er með eiturlyfjaglæpi, eða hvort það eru skipulagðir glæpir þar sem menn með köldum huga skipuleggja glæpi sem þeir vita nákvæmlega hvaða afleiðingar hafa og hvaða refsingar liggja við.

Varðandi mælikvarða og sjónarmið sem varða refsingar þá er það ákveðinn mælikvarði á siðferði og mannúð í hverju þjóðfélagi hvernig refsingar eru. Við erum ekkert mjög hrifin af fréttum þar sem verið er að höggva hendur af fólki og annað slíkt í refsingarskyni. Við teljum að við séum með nokkuð mikla mannúð og gott siðferði í sambandi við refsingar.

Við Íslendingar höfum notið þess að hafa eiginlega ekki kynnst eiturlyfjum fyrr en fyrir svona 15, 20 árum. Þetta var gjörsamlega óþekkt. Við þekktum að sjálfsögðu áfengissýkina og þá harmleiki sem hún veldur. En við vorum tiltölulega bláeyg gagnvart eiturlyfjum þar til þau helltust yfir okkur allt í einu. Og bæði refsingar og dómar bera þess merki að þetta hefur verið að þróast.

Ég nefni sem dæmi að e-töflur voru ekki bannaðar í upphafi. Menn áttuðu sig ekki á afleiðingum þeirra. Það sama á við um stera. Síðan uppgötva menn og finna út hvaða afleiðingar þessi lyf hafa og mörg efni, LSD t.d., og þau eru bönnuð. Og þá er allt í einu farið að refsa fyrir eitthvað sem ekki var refsivert áður. Og það er einmitt það sem ég held að þurfi að koma inn í þetta mál sem við ræðum hér að brotin eru að breytast. Ég vildi gjarnan að þeir sem eru á móti því að þyngja þennan ramma hugleiði eftirfarandi: Segjum að æðsti yfirmaður kókaínshrings í Kólumbíu væri tekinn á Keflavíkurflugvelli og það sannist á hann, hann sé með gögn með sér sem sanna að hann sé sekur og skipuleggi sölu eiturlyfja um allan heim og valdi ómældri þjáningu hjá hundruð þúsunda manna um allan heim. Þetta er glæpur sem við höfum bara aldrei séð. Og hvernig ætlum við að dæma þennan mann? Að hámarki í tíu ár? Hann mundi sennilega flýja til Íslands annars staðar frá ef hann vissi af því.

Ég held að þetta frv. þurfi að taka á þessu því við erum alltaf að horfast í augu við þyngri og þyngri mál. Því fer maður að spyrja sig þegar farið er að dæma menn til níu ára fangelsisvistar núna fyrir ákveðið brot: Hvað ætla menn að gera þegar kemur að miklu alvarlegri brotum og þegar næst í þá menn sem aldrei næst í, þá sem skipuleggja með köldu blóði allan innflutninginn? Það næst aldrei í þá vegna þess að alltaf eru einhver ,,saklaus`` burðardýr tekin, rekin áfram af fíkninni, viljalaus, til þess að fremja glæpi. Þess vegna hefur fælingin eða lengd refsingar engin áhrif á það fólk sem er tekið, viljalaust og rekið áfram af fíkninni. Það gleymist alltaf í þessu máli sem og öðrum að þetta fólk hefur ekkert frjálsan vilja. Það er ofurselt fíkninni.

Það eru hinir sem skipuleggja glæpinn ofan frá, þeir sem skipuleggja iðnaðinn, sem ættu skilið langa refsingu og það eru þeir sem refsingin gæti hugsanlega fælt frá, hugsanlega.

Reyndar væri mjög áhugavert að menn litu á fíkniefnaiðnaðinn sem iðnað og sem atvinnugrein, herra forseti, að menn fari að líta á þetta sem atvinnugrein nákvæmlega eins og sjávarveg eða einhverja aðra atvinnugrein og átta sig á því við hvernig aðstæður þessi ,,atvinnugrein`` býr. Hún býr við þær aðstæður að hafa afskaplega hátt verð sem haldið er uppi með lögum, með bönnum og refsingum. Verðið er beint fall af refsingum. Ímyndum okkur að allt í einu gæfi allur heimurinn eiturlyf frjáls. Verðið mundi lækka umtalsvert.

Hin gífurlega góða markaðssetning í þessari atvinnugrein sem felst í því að það er maður á mann, það er maður á mann á litlu börnin í grunnskólunum þar sem þeim eru gefin eiturlyf til þess að koma þeim á bragðið. Markaðssetningin er svona sterk vegna þess hve verðið er hátt, vegna þess hve bönnin eru mikil.

Ef menn fara að skoða þessa atvinnugrein sem atvinnugrein þá getur verið að menn mundu kannski bregðast öðruvísi við. En ég hygg að það verði að gerast yfir allan heiminn samtímis. Það mætti gjarnan skoða hvaða afleiðingar það hefði ef eiturlyf yrðu bönnuð og leyfð til skiptis, tvö, þrjú ár í senn því ekkert fer eins illa með neina atvinnugrein, og það þekkjum við Íslendingar í sjávarútvegi, og einmitt sveiflukennt verð.

Mér finnst ég þurfa að koma inn á þetta. Mér að finnst frv. sem við ræðum sé meira til að taka á þyngri glæpum, ekki til að auka refsingu við þeim glæpum sem hafa verið framdir hingað til. Þar á að gæta samræmis. En við erum alltaf að mæta þyngri og þyngri glæpum og hvað ætlum við að gera þegar við náum loksins í einhvern af höfuðpaurunum? Á þá að dæma hann eins og burðardýrið sem rekið er áfram að fíkninni og tekur á sig alla sökina af ótta? Af ótta við hefndir sem við trúum varla að séu til en því miður sjáum við aftur og aftur að raunverulegar hefndir tíðkast í þessari atvinnugrein.

Vegna þessa er ég hlynntur þessu frv. Ekki vegna þess að það þyngi refsingar við núverandi brotum, alls ekki, heldur ef við skyldum ná í miklu harðsvíraðri brotamenn sem skipuleggja allt saman. (Gripið fram í: Nægja þá 12 ár?) Nei, það er nefnilega góð spurning hvort 12 ár nægja. Ég er ekkert endilega viss um að þau dygðu til.

Svo er hérna mat fjmrn. sem ég ætla rétt aðeins að gera athugasemd við. Það gerir ráð fyrir því að þetta hafi ekki teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Auðvitað kann svo að vera eftir fimm eða sex ár þegar þyngingin fer að koma í ljós að fleiri verði í fangelsum þannig að það er ekki augljóst að frv. valdi engum kostnaði.

[14:15]

Ég held að sú umræða sem hér hefur átt sér stað hafi verið ágæt, en hún hefur farið í kross. Þeir sem hafa talað gegn þessu frv. hafa rætt um að þyngja dóma við svipuðum brotum og hafa verið framin. Hinir sem kalla á rýmri refsiramma reikna með því að við kunnum að upplýsa brot sem eru miklu alvarlegri en þau brot sem við höfum kynnst. Ég vil taka það fram að ég tel innflutning og skipulagða sölu á eiturlyfjum jafnvalvarlegt athæfi og morð. Það er nefnilega morð í pörtum.