Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 14:16:10 (7007)

2001-04-27 14:16:10# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[14:16]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Hér fer fram umræða um frv. um breytingu á almennum hegningarlögum þar sem meginmarkmiðið er að hækka refsirammann úr tíu árum í 12 vegna fíkniefnabrota. Þó að í þessu frv. sé einnig fjallað um peningaþvætti þá hefur ekki verið fjallað mikið um það í umræðunni en það fellur væntanlega undir það sama. Hér hafa menn rætt um áhrif hertra refsinga og hvort þær nái því markmiði að stemma á einhvern hátt stigu við þessum brotum.

Í þessari umræðu hefur ýmislegt komið fram þó ýmislegt vanti. Umræða hefur dregið það mjög skýrt fram að frv. er mjög vanbúið. Lítil sem engin rannsókn hefur farið fram á því hvaða afleiðingar hertar refsingar kunni að hafa, a.m.k. ekki á vegum yfirvalda. Hins vegar liggja fyrir mjög margar rannsóknir um áhrif hertra refsinga á glæpi og þær ber allar að sama brunni. Hertar refsingar hafa lítil sem engin áhrif á brotastarfsemi yfir höfuð. Það er alveg sama til hvaða rannsókna er litið í þeim efnum, allt virðist bera að sama brunni.

Því hafa menn spurt í þessari umræðu: Af hverju er verið að hækka refsirammann úr tíu árum í 12? Hvaða markmiðum eru menn að reyna að ná? Að hverju er stefnt? Ég held að menn verði að hugleiða í þessu samhengi hver almenn markmið refsinga séu í samfélagi.

Í fyrsta lagi er markmiðið að vernda tiltekna samfélagslega hagsmuni eða einstaklingsbundna hagsmuni. Í refsingunni sjálfri hafa jafnan verið talin a.m.k. fjögur markmið og jafnvel fleiri, þ.e. hefnd samfélagsins fyrir að brotið hafi verið gegn reglum þess. Í öðru lagi að það takist að koma brotamanni til betri vegar á lífsleiðinni. Þriðja markmiðið er að samfélagið geymi þessa menn um stundarsakir og í fjórða lagi eru það margrædd varnaðar- eða fælingaráhrif sem reynt er að ná með því að setja í lög að brot við þeim varði tiltekinni refsingu.

En þá hljótum við að spyrja við þessa umræðu: Hvaða markmiðum er verið að reyna að ná með því að hækka refsingu úr tíu árum í 12? Eins og umræðan hér hefur þróast þá er það bara tvennt sem menn hafa sett fram sem rök, eða sem a.m.k. má skilja sem rök vegna þess að röksemdafærslan hefur vægast sagt verið heldur slök. Í fyrsta lagi er það hefndin og í öðru lagi geymslan. Ekkert annað í eðli refsinga og markmiðum þeirra hefur verið fært fram við þessa umræðu. Hér er ekki talað um að reyna að tryggja að út úr fangelsunum komi betri menn en inn í þau fóru og fyrir liggur að allar rannsóknir á varnaðaráhrifum leiða í ljós að hertar refsingar hafa lítil sem engin áhrif. Þá er aðeins tvennt eftir, þ.e. hefndin og geymslan.

Rökin sem helst hafa heyrst hér eru að dómar sem hafa fallið í alvarlegum málum séu farnir að nálgast tíu ára hámarkið. Það eru út af fyrir sig rök sem allt í lagi er að líta. En menn verða að hafa annað í huga. Það er sama við hvern er rætt og við hvern er talað sem þekkir eða tengist þessu umhverfi sem stundum er nefnt fíkniefnaheimurinn, að öllum ber saman um að harkan í því samfélagi hefur aukist til mikilla muna undanfarin fjögur til fimm ár. Það er líka fróðlegt að velta því fyrir sér hvenær dómar fóru að þyngjast verulega í þessum málum.

Í sjálfu sér er ekki hægt að nefna neinn einn tiltekinn dóm en oft er rætt um að dómur sem er kenndur við Hollending, frá því fyrir nokkrum árum, hafi valdið vatnaskilum í þessu samhengi. Án þess að ég sé að draga beinar ályktanir um tengsl þessara vatnaskila og þeirrar staðreyndar að harkan í þessari veröld hefur orðið miklu mun meiri undanfarin þrjú, fjögur ár þá eru þetta samt sem áður staðreyndir.

Ég vil líka nefna nokkuð sem veikir dálítið málflutning stjórnarliðsins hér á þingi, þ.e. þegar menn tala um nauðsyn þess að hækka refsingar úr tíu árum í 12, en einungis í 40% tilvika þar sem menn eru dæmdir til refsivistar eru þeir látnir sitja allan tímann. Einungis í 40% tilvika er það svo að menn eru látnir sitja allan tímann. Það eru ekki dómstólar sem ákveða þetta heldur stjórnvöld. Stjórnvöld taka ákvörðun um að stytta refsivist um helming eða að leyfa mönnum að yfirgefa refsivistina að genginni tveimur þriðju af tildæmdri refsivist.

Það er því vissulega spurning og ástæða til þess að varpa því upp hér hvort stjórnvöld hefðu ekki að einhverju leyti átt að byrja þar, ef það er viðhorf þeirra að eftir því sem menn sitja lengur inni þeim mun líklegra sé að árangur náist í baráttunni gegn þeim ósóma sem fíkniefnin eru. Það er því ekki mjög sannfærandi að hlaupa til og hafa það eitt vopn í vopnabúrinu að hækka refsirammann.

Sú staðreynd hefur verið nefnd í þessari umræðu að fjárframlög til þeirra sem er ætlað að halda uppi lögum og reglu í samfélaginu, sérstaklega á þessu sviði, hafa verið ónóg. Það er líka til þess fallið að veikja það að hér sé á ferðinni einhver alvöru tilraun til þess að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er í þessum efnum. Það eru því enn frekari rök fyrir því að hér sé aðeins ætlunin að flagga svona í dagsins önn svo menn geti státað sig af því á mannamótum og í skálaræðum að þeir hafi haft áhuga á því að taka á í þessum málaflokki af einhverri alvöru. Þegar öll rök í þessu máli eru skoðuð er því fyrst og fremst að mínu viti um að ræða einhvers konar viðbrögð, einhvers konar tilraun án þess að nokkurt markmið eða rök séu fyrir henni. Það er einmitt þetta sem umræðan hefur dregið mjög skýrt fram á hinu háa Alþingi.

Það hefur komið mjög skýrt fram að kostirnir við að herða refsingar eru vandfundnir, það er alveg sama hvaða rannsókn er skoðuð er. Ein sú nýjasta var t.d. gerð í níu löndum Vestur-Evrópu. Ég vil vitna í grein sem rituð er á kreml.is. Höfundur hennar er Jón Þór Sturluson. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í dag var kynnt ný rannsókn sem virðist í fljótu bragði vera sú besta sem hingað til hefur komið fram á þessu sviði. Í rannsókninni, sem Lars Westfelt við afbrotafræðistofnun Stokkhólmsháskóla hefur gert, er þróun glæpa og tengsl þeirra við refsilöggjöfina í 9 löndum í Vestur-Evrópu skoðuð. Rannsóknin nær til þróunartíðni ólíkra tegunda glæpa síðastliðin 50 ár í 9 löndum í Vestur-Evrópu, sem hafa valið mjög ólíkar leiðir í refsingum.

Niðurstaðan er afar afdráttarlaus, að lengd fangelsisrefsinga hafi engin marktæk áhrif á umfang eða eðli glæpa. Þróun glæpa er mjög svipuð í öllum löndunum 9 jafnvel þó að refsingar sé mjög ólíkar. Stórtækar breytingar á refsilöggjöfinni virðast heldur ekki hafa nein áhrif á glæpi.``

Ekki aðeins þessi rannsókn heldur flestar rannsóknir eða allar sem hefur verið vitnað til í þessari umræðu hafa sýnt það eða þeirra niðurstaða er sú að hækkun refsinga hafi í raun engin áhrif.

Þess vegna hefur eftirfarandi spurningu verið velt upp í þessari umræðu: Hvað gengur mönnum til? Hvert er markmiðið? Ekki hefur tekist að draga það fram, enda hafa menn í sjálfu sér ekki önnur markmið en að slá sér á brjóst og reyna að koma sér upp einhvers konar minnismerki sem þeir geta vitnað til í hinni almennu umræðu og þá eru rökin að sjálfsögðu vandfundin.

Við skulum líka velta því fyrir okkur hvaða galla menn sjá við að þyngja refsingar í ljósi þess að hertar refsingar hafa engin áhrif á eðli eða tíðni glæpa. Það er alveg ljóst og þarf ekki langa orðræðu þar um að fáir koma út úr fangelsunum betri menn en þegar þeir fóru þar inn. Það markmið hefur klárlega ekki náðst. Það er líka augljóst, eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á áðan, að vitaskuld hlýst aukinn kostnaður af lengri fangelsisvist. Ég held að mjög gott hafi verið að taka þessa umræðu. Ég held að það sé mönnum mjög hollt að ræða um eðli refsinga, markmið þeirra og að hvaða árangri við stefnum með hertum refsingum og hvort við séum að ná þessum markmiðum. Umræðan hefur leitt í ljós að menn hafa ekki náð neinum árangri með hertum refsingum. Það er bara hinn harði veruleiki í þessu öllu saman, sama hvað skoðun menn hefðu viljað hafa á þessu öllu saman.

Þegar skoðuð er helsta röksemdin sem hér hefur verið færð fram, að vegna þess að þessi heimur er enn að harðna þá þurfi að vera mögulegt að dæma menn til lengri refsivistar af því að dómar eru komnir upp undir þakið, þá hljóta menn að spyrja líka: Á þetta bara við á þessu sviði? Er það einungis á þessu sviði að menn telja nauðsynlegt að hækka refsirammann af því að menn eru komnir upp í þakið?

[14:30]

Ekki er langt síðan dæmt var ævilangt fangelsi í morðmáli. Þar með eru menn komnir svo langt sem hægt er að því er varðar refsingar í slíkum málaflokki fyrir slíkt afbrot. Það er enginn að ræða í neinni alvöru um að dæma menn í margfalt ævilangt fangelsi eða kveða upp líflátsdóma. En með sömu röksemdafærslu og hér hefur heyrst fram ætti slíkt líka við í þessum málaflokki. Það sýnist mér augljóst úr því að fallinn er dómur þar sem ekki verður lengra komist. Þá hljóta menn að vera komnir upp undir þakið. Ef menn eru komnir upp undir þakið í morðmálum þá hlýtur, með sömu röksemdafærslu, að þurfa að koma hér á margföldu ævilöngu fangelsi. (Gripið fram í: Það er þekkt fyrirbrigði.) Vissulega. Menn hljóta þá að vera að ræða það á sömu forsendum en ég heyri engan tala um það, ekki einn einasta þingmann sem hér hefur tjáð sig. Þaðan af síður hvetja menn til þess að taka upp líflátsdóma.

Þau rök sem færð hafa verið fyrir þessu frv. halda að mínu viti engu, því miður. Ef það gagnaðist í baráttunni gegn fíkninefum þá væri það vel og þá mundum við vissulega styðja frv. Ég er hins vegar smeykur um að þetta sé einfaldlega flótti stjórnvalda frá veruleikanum, líkt það að lýsa yfir fíkniefnalausu Íslandi árið 2000, 2001, 2002 og árlega eitthvað fram í tímann.

Ég verð því miður að játa að ég fæ á tilfinninguna að stjórnvöld hafi að einhverju leyti gefist upp. Annars fengju menn ekki jafnódýrar hugmyndir og hér um ræðir. Ég lít svo á, virðulegi forseti, að menn setji þær ekki fram í öðrum tilgangi en þeim að koma sér upp einhvers konar minnismerki sem þeir geti vitnað til í ræðum á mannamótum án þess þó að þær miði að því að bæta samfélag okkar.