Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 14:38:13 (7011)

2001-04-27 14:38:13# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[14:38]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. má hafa þá sannfæringu sem hann vill og það er vel. (GHall: Til þess erum við hérna.) Já, það mætti sjást oftar í atkvæðagreiðslum. Hv. þm. má hafa þá sannfæringu sem hann vill. Það breytir hins vegar ekki því að allar þær rannsóknir sem hafa verið gerðar benda til þess að hækkun refsinga hafi ekkert með tíðni glæpa að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það breytir ekki því að hv. þm. megi hafa þá sannfæringu að hækkun refsinga muni breyta einhverju. Við því er ekkert að segja. Hann má hafa þessa sannfæringu en allar vísindarannsóknir benda til annars.

Mér fannst fróðlegt að hv. þm. hefur þó þann kjark að segja að hann vildi einnig taka upp hýðingar. Það er sennilega nýtt í umræðunni og má segja að hv. þm. sé kjarkmaður að koma með þá nýju hugmynd. Ég vil segja það sjálfur, virðulegi forseti, að ég tek ekki undir þær hugmyndir.