Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 15:04:36 (7017)

2001-04-27 15:04:36# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni að hæstv. dómsmrh. skuli loks á lokasprettinum taka þátt í þessari umræðu og þá á ég við með málefnalegum hætti. Í raun og sanni var þessi ræða hæstv. ráðherra hennar fyrsta, að minni hyggju, málefnalega innlegg til þeirrar löngu og ítarlegu umræðu sem hér hefur farið fram. Því er nú verr og miður. Betur hefði verið að hæstv. ráðherra hefði flutt þessa ræðu fyrr í umræðunni þannig að menn hefðu getað reynt að nálgast þetta mál málefnalega sem hefur verið markmið mitt og fleiri hv. þm. stjórnarandstöðunnar allt frá byrjun.

Áhyggjur mínar hafa fyrst og síðast legið í því að hugsanlega væri verið að senda út skilaboð í orði kveðnu þess efnis að þetta væri mikilvægur þáttur í baráttunni gegn fíkniefnum en hættan væri sú að skilaboðin væru innihaldslaus og þau breyttu í raun engu þegar til kastanna kæmi og að betra væri bara að veifa röngu tré en öngvu. En þá er verr af stað farið en heima setið. Það hafa verið ábendingar okkar.

Ég beindi spurningu til hæstv. dómsmrh. sem ég heyrði hana ekki svara og hún er ósköp einföld: Veldur það ekki hæstv. ráðherra dálitlum heilabrotum og jafnvel áhyggjum, að dómstólaráð, Lögmannafélag Íslands og afbrotafræðingur við Fangelsismálastofnun skuli gjalda varhug við þessari stefnumörkun og benda á að hún geti snúist upp í andhverfu sína?