Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 15:10:20 (7020)

2001-04-27 15:10:20# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé óþarfi að fara að endurtaka margt það sem hefur verið sagt í þessari umræðu. Ég hef ítrekað skýrt frá því ásamt ýmsum öðrum hv. þm. að þetta mál er vel rökstutt. Fram hafa komið upplýsingar í þessu máli sem sýna fram á nauðsyn þess að breyta þessu lagaákvæði. Ég hef líka skýrt frá því að margvíslegar rannsóknir hafa farið fram og fara fram reglubundið. Tölfræðilegar upplýsingar koma fram við alls kyns rannsóknarvinnu sem fer fram í sakamálum. Ég hef ekki skipt um skoðun og er auðvitað alveg sammála þeim orðum sem komu fram í þeirri greinargerð sem hv. þm. las upp áðan, að það er nauðsynlegt. Við þurfum að hafa upplýsingar undir höndum til þess að móta refsistefnu og að því er unnið.

Þetta frv. þolir ekki bið. Það þarf að samþykkja nú á vorþingi. Ég heyri á hv. þm. að hann er líklega sammála efni þessa frv. Hann talar jafnvel um að hann þurfi að fá betri upplýsingar en gæti hugsanlega skipt um skoðun og samþykkt það í haust. Ég fagna þeim sinnaskiptum og treysti því að hann veiti okkur liðsinni til þess að frv. fái hér brautargengi.