Samningsmál lögreglumanna

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 15:02:34 (7037)

2001-04-30 15:02:34# 126. lþ. 115.91 fundur 497#B samningsmál lögreglumanna# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[15:02]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hv. Alþingi þyrfti að taka það til umræðu og skoðunar hvers vegna hópur lögreglumanna gekk að húsinu áðan. Þetta var ekki herferð dómsmrh. gegn glæpum, þetta voru ekki pappalöggur, þetta voru lögreglumenn af holdi og blóði. Þeir voru ekki að koma til þess að fagna tíu ára afmæli forsrh. í starfi. Þeir voru að koma hingað til þess að kvarta undan því að ekki hefur verið hægt að ná samningum um kjör þeirra. Í átta mánuði hefur staðið yfir samningaþjark um kjör lögreglumanna. Ekki er hægt að hrópa húrra fyrir þeim launum sem þeir hafa. Þeir eru of fáir og það fást ekki menn til starfa. Sífellt er verið að ráða afleysingamenn sem hafa ekki haft tækifæri til þjálfunar. Þessi mál eru í ólestri og er eðlilegt að lögreglumenn hafi komið hingað til að kvarta.

Ofbeldi er að aukast í þjóðfélaginu og viðvarandi skortur hefur verið á löggæslu. Kröfur um t.d. úrbætur í vegamálum eru jafnvel tengdar því að ekki hefur verið hægt að halda uppi eðlilegri löggæslu. Hvers vegna þarf að tvöfalda Reykjanesbraut? Ef menn héldu þar uppi almennilegri löggæslu og þar væri eðlilegur umferðarhraði, þá þyrfti kannski ekki að gera það. Svo er um fleiri mannvirki svo maður nefni dæmi.

Fíkniefnin hafa aldrei verið meira á ferðinni. Yfirlýsingar eru um það frá þeim til þekkja að þau séu bókstaflega orðinn faraldur. Á sama tíma tekst mönnum ekki að koma á eðlilegum samningum við lögreglumenn. Þeir hafa ekki verkfallsrétt og þess vegna er enn þá brýnna að yfirvöld nái við þá samningum á eðlilegan hátt. Ég hvet til þess að gengið verði í þessi mál sem allra fyrst. Samfylkingin hefur óskað eftir því að fram fari umræða um þetta mál á miðvikudaginn. Vonandi fæst þá tími með bæði ráðherra dómsmála og fjármála til að fara yfir þessi mál og gefa skýringar á því hvernig á því stendur að ekki tekst að ná þessum samningum saman.