Samningsmál lögreglumanna

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 15:04:50 (7038)

2001-04-30 15:04:50# 126. lþ. 115.91 fundur 497#B samningsmál lögreglumanna# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þetta er umhugsunarefni, ekki aðeins fyrir hæstv. fjmrh. og ráðuneyti hans, viðsemjanda lögreglumanna heldur einnig Alþingi sem á að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Það á að vera okkur öllum til umhugsunar að slík er orðin óánægja á meðal löggæslustétta með kjörin að Landssamband lögreglumanna sér ástæðu til að efna til skipulagðra mótmæla, sér ástæðu til að efna til auglýsingaherferðar í dagblöðum landsins þar sem spurt er hve lengi lögreglumenn haldi út á þeim kjörum sem þeim eru búin. Enda kemur fram í öðrum auglýsingum að byrjunarlaun lögreglumanna eru rúm 100 þús. kr.

En ástæða þess að rétt er að taka þessi mál til umræðu um störf Alþingis er m.a. sú að hér hafa verið sett lög um hvert skuli vera vinnuferlið við gerð kjarasamninga. Við höfum lögfest á Alþingi lög þess efnis sem lúta m.a. að viðræðuáætlunum. En hvaða lög ná yfir þá ósvífni sem framkvæmdarvaldið sýnir þeim stéttum sem hafa verið án kjarasamninga frá því 1. nóvember sl.? Þetta á við um lögreglumenn og þetta er ein ástæða þess að þeir efna til þeirra mótmæla sem við verðum nú vitni að. Þetta á að verða okkur öllum til umhugsunar, einnig á Alþingi og ekki síst hér.