Samningsmál lögreglumanna

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 15:12:40 (7042)

2001-04-30 15:12:40# 126. lþ. 115.91 fundur 497#B samningsmál lögreglumanna# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hópur lögreglumanna bankaði á dyr þinghússins fyrir nokkrum mínútum og að því leytinu til hefur það áhrif á störf þingsins og á heima undir þessari umræðu. Herra forseti. Það mátti ætla af viðbrögðum hæstv. ráðherra að þeir hefðu ekki orðið varir við þennan hóp manna enda þótt þeir hefðu tekið við bænarskjali úr höndum þeirra. Þannig töluðu þeir og virtust ekki skynja eða skilja eðlilega kröfugerð þeirra eða stöðu lögreglumanna í landinu yfirleitt.

Það er öllum ljóst sem vilja vita að laun lögreglumanna í innanlandssamanburði, svo ekki sé talað um samanburði við kollega þeirra erlendis, eru smánarlaun og erfiðlega gengur að ná hæfu fólki í raðir lögreglunnar. Á hátíðarstundum og í umræðum um mikilvæg mál, glæpi og refsingu, ég tala ekki um fíkniefnamál í því samhengi, leggja menn mikið á lögregluna og tala um mikilvægi hennar. En staðreyndirnar tala sínu máli. Í heila átta mánuði hafa ekki náðst samningar við lögreglumenn, sem eru án verkfallsréttar. Hér koma hæstv. ráðherrar og tala almennt og algjörlega án þess að hafa nokkuð efnislegt til málanna að leggja. Ég hvet til þess, herra forseti, að Alþingi láti sig þetta mál varða. Ljóst er að framkvæmdarvaldið hefur ekki náð að halda utan um það með viðunandi hætti eins og fátækleg svör hæstv. ráðherra bera með sér. Það er mál að linni og mál til komið að staða lögreglumanna fái það vægi sem henni ber. Ef framkvæmdarvaldið dugir ekki til í því sambandi þá trúi ég að hið háa Alþingi sé tilbúið að rétta þar hjálparhönd. (Sjútvrh.: Á Alþingi að semja?)