Almenn hegningarlög

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 15:18:32 (7046)

2001-04-30 15:18:32# 126. lþ. 115.1 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggjumst ekki gegn þessu frv. en sitjum hjá við afgreiðslu þess og ástæðan er þessi:

Fyrir þremur árum var samþykkt hér á Alþingi þáltill. sem á rót að rekja til tillögu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flutti í þinginu um að fram fari ítarleg könnun á refsiramma í íslenskri hegningarlöggjöf, á hvern hátt hann væri nýttur, ekki aðeins með tilliti til fíkniefnabrota heldur til kynferðisbrota, ofbeldis gegn börnum og annarra glæpa.

Við hefðum talið eðlilegt að þessi skýrsla lægi fyrir áður en frv. af þessu tagi yrði samþykkt. Ég endurtek: Við erum ekki andvíg þessari lagabreytingu í sjálfu sér en teljum að hana hefði átt að skoða með tilliti til þeirrar rannsóknar sem ég hef vísað til.