Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 15:38:15 (7054)

2001-04-30 15:38:15# 126. lþ. 115.14 fundur 648. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (atvinnurekstrarleyfi) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það litla frv. sem hæstv. ráðherra var að mæla fyrir hefur valdið mér pínulitlum heilabrotum. Verið er að leggja þetta til vegna notkunarleysis á því ákvæði sem þarna er verið að fella úr gildi og virðist vera aðalröksemdin fyrir frv.

Nú vil ég taka fram strax í upphafi að ég er ekki að setja mig á móti málinu en ég hvet hins vegar hv. nefndarmenn efh.- og viðskn. að velta málinu vandlega fyrir sér og reyna að átta sig á því hvaða áhrif þetta muni geta haft. Ég á von á því að það verði ekki endilega niðurstaðan að hætt verði við að flytja þetta frv. Hins vegar vil ég benda á að hægt er að láta sér detta í hug að þeir sem vilja að erlendir verkamenn fari að stunda atvinnu á Íslandi í gegnum einkahlutafélög sem eru stofnuð til að vinna eingöngu beint fyrir atvinnurekendur og létta þeirri kvöð og skyldu sem atvinnurekandi hefur gagnvart starfsmönnum sínum af þeim. Við gætum farið að sjá slík hlutafélög í miklum mæli. Það er hugsanlegt.

Ég held að ástæða sé til að velta því fyrir sér hvaða stöðu slík einkahlutafélög hefðu sem stofnuð væru eingöngu til þessa. Verkalýðsfélögin hér hafa verið að berjast gegn því að einstaklingar séu að vinna í verktöku fyrir atvinnurekendur á grunni sem þessum. Ég tel að með þessu sé verið að auðvelda þessa leið og það geti orðið til þess að atvinnurekendur á Íslandi fái verkafólk frá öðrum löndum til að stofna til svona fyrirtækja og vinna fyrir þá án þess að þeir hafi neinar aðrar skyldur gagnvart þessu verkafólki en þeir hafa í viðskiptum við einkahlutafélög á Íslandi.

Ég velti því t.d. fyrir mér hvaða stöðu slíkur einkarekstur hefur þegar harðnar á vinnumarkaðnum. Hefur slíkur einkarekstur kannski alveg jafna stöðu á við þá sem fyrir eru? Getur það verið að t.d. fjölskylduhlutafélag, sem er stofnað til þess að koma fjölskyldunni í vinnu á Íslandi, geti farið að stunda undirboð á þjónustu og vinnu á Íslandi undir merkjum slíkra hlutafélaga? Mér finnst nefnilega skýringin á því að þetta frv. er flutt, þ.e. vegna notkunarleysis á ákvæðinu sem hér er verið að leggja til að verði fellt brott, ekki nægileg. Hins vegar finnst mér hlutirnir smella saman ef það er haft í huga og ef áhrifin sem ég er að tala um yrðu eins og ég hef verið að nefna.

Ég vil endurtaka að menn þekkja að verkalýðsfélögin hafa verið að leggja áherslu á að reyna að vinna gegn verktöku verkafólks í atvinnulífinu með þeim hætti sem hefur ágerst á undanförnum árum og þetta hefur skapað vanda, bæði réttleysi þess fólks sem vinnur með þessum hætti og líka auðvitað að kjaravanda því að niðurboð á slíkri þjónustu eru auðvitað auðveld.

En hin vandamálin gætu fylgt þessu, þ.e. að verkafólk á Íslandi sem á að hafa réttindi sín tryggð á íslenskum vinnumarkaði --- og ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort hún telji að einkahlutafélög, sem eru stofnuð af útlendingum sem koma til landsins til að vinna hérna og bjóða þjónustu sína, með þessum hætti, hafi algjörlega sambærilega stöðu og muni standa jafnfætis verkafólki sem er að vinna á íslenskum vinnumarkaði, hvort þannig muni þetta verða í framtíðinni og hvort ástæða sé til að fara vandlega yfir það hvernig eigi þá að bregðast við því ef slík einkahlutafélög yrðu notuð með þeim hætti sem ég var að lýsa áðan, þ.e. að þau færu að bjóða þjónustu á miklu lægri gjöldum en tilefni eru til vegna gildandi kjarasamninga.

Þetta eru áhyggjur mínar, herra forseti, og ég beini því til hv. nefndarmanna að þeir velti þessu fyrir sér og skoði hvaða áhrif muni verða af þessari breytingu, hvaða þróun hún muni hafa í för með sér.