Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 15:48:25 (7056)

2001-04-30 15:48:25# 126. lþ. 115.14 fundur 648. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (atvinnurekstrarleyfi) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[15:48]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Þetta frv. lætur ekki mikið yfir sér en hér er verið að fella niður litla grein sem fjallar um það hvernig eigi að taka til umfjöllunar þau leyfi eða þær umsóknir sem koma hingað um að stofna hér félög eða atvinnurekstur.

Þegar þessi mál voru til umfjöllunar fyrir nokkrum árum og hvort heimila ætti útlendum aðilum að fjárfesta í íslensku efnahagslífi, þá var það mjög til umræðu hvort til stæði að heimila og hvernig ætti að heimila fjárfestingar útlendinga í íslenskum sjávarútvegi. Þá var talið mjög hættulegt að leyfa slíkt þannig að það var gert einungis með mjög ströngum skilyrðum og þá með mjög miklu eftirliti þannig að það væri öruggt að enginn útlendingur gæti keypt hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum Íslendinga að neinu leyti.

Nú sé ég, herra forseti, að verið er að fella niður þetta svokallaða eftirlit og ég velti því fyrir mér og langar til að heyra það frá hæstv. ráðherra, ef ráðherrann getur svarað því svona óundirbúið, hversu mikil ásókn útlendinga er í að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Er einhver skoðun á því í gangi af hálfu ráðuneytisins að rýmka heimildir, þannig að útlendingar geti fjárfest í íslenskum sjávarútvegi í meira mæli og með hærri hlutföllum en eru í dag?

Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta, herra forseti. Ég vil reyndar taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um verktaka á íslenskum vinnumarkaði sem eru að færast á allt annað stig en menn hafa þekkt. Það er ekki einungis svo að hingað til lands komi útlendir verktakar sem taka að sér ýmis verkefni, t.d. verktöku í flugrekstri, eins og flugþjónar og flugfreyjur eru allt verktakar, heldur er einnig farið að tala um að ráða sjómenn í verktöku. Þetta er svo sem ekki beinlínis tengt þessu máli en þetta er eitt af því sem við sjáum að er að þróast smám saman út í leiðir sem menn höfðu ekki gert ráð fyrir en þyrfti væntanlega að hugsa eitthvað um hvernig haft yrði eftirlit með því að þessi verktaka hefur leitt það af sér að stór hluti af þeim hópi sem á að heita verktakar hefur ekki efni á að kaupa sér þær tryggingar sem þeir þurfa í rauninni að hafa til að geta verið verktakar. Þeir geta ekki tryggt lífeyri eða örorku eða eitt né neitt af því sem þykir alveg sjálfsagður hlutur á vinnumarkaðnum í dag.