Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 15:52:11 (7057)

2001-04-30 15:52:11# 126. lþ. 115.14 fundur 648. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (atvinnurekstrarleyfi) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[15:52]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég tel ekki að það þurfi að hafa áhyggjur af því máli sem var reifað af hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. En að sjálfsögðu er mikilvægt að farið sé yfir það í nefnd eins og alltaf er. Eins og kom fram í máli mínu er hér um að ræða frv. sem er flutt í samhengi við annað frv. og hæstv. félmrh. flytur og varðar atvinnuréttindi útlendinga.

Ég tel að við séum að verulegu leyti bundin í sambandi við EES-samninginn hvað þetta varðar og þar séu þær línur lagðar sem við vinnum í sjálfu sér fyrst og fremst eftir. En eins og allir vita, og hv. síðasti ræðumaður nefndi, eru hins vegar ákveðnar undantekningar sem varða fjárfestingu í sjávarútvegi og að sjálfsögðu halda þær áfram og eru lögbundnar. Það er stefna ráðuneytisins að færa þau lög í betra form að því leyti til að nálgast efnið á jákvæðari hátt en er í núgildandi lögum. Hins vegar eru ekki uppi áform um að breyta því ákvæði sem varðar fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi.

Vegna spurningar hv. þm. um það hvort mikill þrýstingur sé á erlendra aðila þá er það nú þannig með þessi fyrirtæki að þau eru skráð á Verðbréfaþingi. Ákveðið ferli fer í gang ef þar er farið yfir þau mörk sem lög kveða á um að erlendur aðili megi eiga. Mér er ekki kunnugt um að þarna sé um gífurlegan þrýsting að ræða en ég býst nú við að hv. þm. sé ekki að tala fyrir því að þessu lagaákvæði verði breytt. Það kæmi mér mjög á óvart ef svo væri.