Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 16:00:08 (7062)

2001-04-30 16:00:08# 126. lþ. 115.14 fundur 648. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (atvinnurekstrarleyfi) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Kristján Pálsson (andsvar):

Ég held að hæstv. ráðherra hafi væntanlega skilið það sem ég var að segja. Ég sagði að ég hefði lagt það fram í þinginu fyrir nokkrum árum að fjárfestingar útlendinga í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum mættu vera 49%. Ég lagði það frv. fram í eigin nafni og það voru fleiri sjálfstæðismenn á því frv. á sínum tíma. Við lögðum það ekki fram í nafni Sjálfstfl. enda hafa þingmenn Sjálfstfl. heimildir til að leggja fram frv. í eigin nafni.

Hér er ég einungis að spyrja fyrir mig persónulega og hef ekki rætt þetta sérstaklega innan þingflokks Sjálfstfl. En miðað við þann áhuga sem var á þessu máli tel ég enga ástæðu til að ætla annað en að einhver áhugi sé á því að rýmka þetta og það kemur þá væntanlega í ljós. Eins og ég sagði, hæstv. ráðherra, ef til þess kæmi að við legðum fram eitthvert frv., einhverjir þingmenn innan Sjálfstfl. eða ég persónulega, þá mundi ég láta hæstv. ráðherra vita af því þegar þar að kæmi.